Heilsuefling í hnotskurn

Jæja - góðir hálsar...  Nú kemur sagan  af því þegar við Anna, Auðunn og Ævar fórum í sundferð með viðhengi.  Þannig var að Anna kom við í hádeginu einn daginn og spurði hvort ég vildi koma með í bæinn.  Þar sem ég var með gesti, baðst ég undan ferðinni, en lofaði að hitta hana seinna að deginum.  Það var samt hún sem hafði samband aftur og sagði mér að hún væri á leiðinni í sund með strákana og langaði að fá mig með.  Jú, jú...  ekkert sjálfsagðara. Við lögðum af stað og Anna fór að segja mér að hún hefði  keypt forláta buxnadrakt í Galleri og vildi endilega draga mig með þangað.  Við röltum upp í bæ og í umræddri verslun keypti ég samskonar drakt og Anna hafði keypt fyrr um daginn.  Þetta gæti orðið einkennisbúningur fjölskyldunnar, ef þið drífið ykkur hinar..  Kjarakaup semsagt...  Svo töltum við upp í laug og sulluðum  í sundi í töluvert langa stund.  Þar kom að við vorum að verða vatnssósa og Ævar, sem var að verða þreyttur á að drekka vatnsblandaða móðurmjólk, var farinn að ókyrrast.  Við Drifum okkur því á þurrt land og ákváðum, meðan við týndum á okkur spjarirnar, að fara eitthvað og seðja hungrið.  Þegar við löbbuðum niður Gilið og vorum að ræða um möguleikana, ákvað amma Jóna (eftir að við höfðum spekúlerað mikið og hafnað rándýrri grænmetisböku á Bláu Könnunni) að það væri rétt að kanna nýjar slóðir.  Strikið!!  Það er staðurinn!!  Fiðlarinn gamli, gjörbreyttur og orðinn að ?????? stað.  Við þrusuðum upp með lyftunni, inn á þennan nýja stað - alveg út á þak.  Það var frábært útsýnið og gott veður - til að byrja með, síðan verra veður og skrítnir gashitarar sem ekkert gekk að kveikja á.  Þjónninn  kynnti fyrir okkur matseðilinn,  tapas-tilboð dagsins..  Auðunn, sem hafði fengið þær upplýsingar niðri að það væru djúpsteiktar rækjur á matseðlinum, pantaði þær - að sjálfsögðu.  "Ja - - - , það er eiginlega hádegismatseðillinn", sagði þjónninn. "En við reynum samt að redda því".  Þar var það í höfn.  Við Anna lásum yfir þessa 5 mat- og drykkjarseðla sem okkur voru færðir (þar af einn sérstaklega ætlaður ungum konum eins og mér!!! Öskrandi)- og áttuðum okkur á því, fyrir rest,  að Fiðlarinn gamli var líklega ódýrari en það sem við sáum.  En tilboð dagsins - 5 rétta tapas á 990- var svosem allt í lagi, svo við slóum til.  Þjónninn fór eitthvað að tala um að hann kæmi bara með dálítið mikið af brauði og solleis!!  Þetta vakti strax grunsemdir, sem áttu eftir að reynast réttar.  Eftir klukkutíma, einn bjór, 20 sneiðar af brauði,  fulla vatnskönnu, og helminginn af rækjunum hanns Auðunns + flutning af þakinu og inn, fengum við diskana (ef diska skyldi kalla).  litlir, hvítir plattar, minni en barnaskókassalok, birtust fyrir framan okkur.  Á hvorum platta voru fimm stykki (nei, bitar - nei, sýnishorn) af tapas!!!!!!!!!!!!!.  Kannski hef ég eitthvað misskilið þetta "tapas".  Við Anna litum hvor á aðra og urðum máttlausar af hlátri.  Þarna var:  einn aspas (mjög lítill - eins og hálfur, visinn blýantur) - ein snakkflaga með salati á (svona þríhyrningur - einn munnbiti), ein snittusneið með parti af skinnkusneið(tveir litlir munnbitar), trépinni með kjúklinga"lund" sem hefur þá verið af einhverjum undra-ofurvöxnum kjúklingi (tveir munnbitar) og eitt djúpsteikt chilli (komst fyrir bak við aðra framtönnina).  Í heildina mátti segja að þetta væri léttskammtaður forréttur. 

Við vorum tiltölulega snöggar að innbyrða þetta allt saman (hin mjólkandi sísvanga móðir hamsaði smáræðið í sig á 10 sek.) og töluðum hástöfum um að það væri farið að rigna og við ættum þvott á snúrunni heima.  Ég dreif mig að borga og enn hlæjandi og svo drifum við okkur niður með lyftunni og heim.  Heima hjá Önnu fengum við okkur stórar sneiðar af konfektköku til að fylla upp í brot af svengdinni sem eftir sat í vömbinni, þrátt fyrir heimsókn á þennan "afbragðs" veitingastað.  Það er alveg klárt að við erum ekki á leiðinni þangað í bráð og ég mun ekki, sem starfandi leiðsögumaður, vísa neinum að versla þar heldur. Ah-h-h-h .... Þeirra tap........  En samtals var þetta mikil líkamsræktarferð = sund og fislétt máltíð, en ég held bara að ég kaupi gulrætur næst.  Þær eru ekki eins dýrar.   


Þegar kjúllinn er úrbeinaður.....

Þegar ég velti því fyrir mér, af hverju íslendingar eru svona mikil (kjafta)sagnaþjóð, kemst ég að eftirfarandi:  Í þá gömlu hörðu daga, þegar þjóðin var fámenn og dreifð og bjó við þær aðstæður sem við eigum erfitt með að ímynda okkur, í lágreistum torfhúsum og oft einangrað, var fréttin kærkomin.  Gestur sem kom á bæ var krafin frétta og frekar en að hafa ekkert að segja, var ofið aðeins við það litla markverða sem fréttnæmt taldist.  Við eigum líka kveðjuviðauka sem kallar eftir þessum viðbrögðum. " Hvað segir þú í fréttum?" eða  "Hvað er títt?" eru viðhengi  sem loðað hafa við hér á landi og virðist þetta viðhengi vera sér Íslenskt.  Í öðrum löndum er spurt "Hvernig hefur þú það?" eða "Hvernig gengur þér?"  Þrátt fyrir að við séum  meðal allra upplýsingavæddustu þjóða nútímans, gerum við enn þá kröfu, að  fá eitthvað bitastætt að frétta frá viðmælanda.  Og þar sem við erum svo fámenn að allir kannast við flesta, hendir það oftar en ekki að fólk er fréttaefnið. Nú er það svo, að af einhverjum merkilegum ástæðum velst hið neikvæða frekar til umræðu en hið jákvæða og sé fréttin óljós, er farið að leiða getum að "sannleikanum".  Af þessu hlýst það að getgátan er orðin að staðreynd eftir að hafa farið milli  3 - 4 einstaklinga.  "Ólýginn sagði mér". 

Sagan af hænunni sem missti eina fjöður,  er löngu þekkt og var örugglega samin til varnaðar fréttaflytjendum.  En það forvarnarstarf hefur gengið frekar dapurlega og sú saga orðin svo marg tuggin að hún hefur líklega misst allan mátt, en boðskapur hennar stendur alltaf fyrir sínu. En virðingin fyrir tilfinningum annara er af svo skornum skammti að fólk er hiklaust reytt, fjöður fyrir fjöður og ekki nóg með það, heldur er holdið rifið af beinunum líka.  Eigi viðkomandi fórnarlamb sér einhvern talsmann, er hann úrbeinaður í leiðinni og pottrétturinn matreiddur fyrir gráðug eyru næsta manns sem spyr; "Hvað segir þú í fréttum"?  

Flestir reyna, sem betur fer, að sleppa við að valda öðrum líkamlegu tjóni og þeir sem hafa lent í þeim aðstæðum, eiga oft við sálræna erfiðleika að stríða eftir þau slys.  Fólk virðist ekki gera sér grein fyrir því að mannorðsskemmdir eru, ekki síður, tjón fyrir þann sem verður fyrir þeim, en líkamlegir áverkar.  Oftar en ekki missir hinn fréttnæmi einstaklingur fótfestuna, í félagslegum skilningi og lendir í erfiðleikum með að bera af sér mál sem  komast á flug með fjaðradrífunni. Í versta falli getur svona ástand leitt til varanlegs skaða eða jafnvel algerrar uppgjafar.  Við ættum því að velta fyrir okkur  hvernig það er að láta reyta af sér mannorðsfjaðrirnar og hvort við viljum verða næsti kjúklingur sem fær að fjúka......    


Laugardagskvöld

Vikan fauk með norðanstorminum..  Huuuzzzzz..... búin!!  Samt er ég búin að gera heilmargt - aldrei þessu vant.  Þó hef ég ekki farið í sund eins og ég ætlaði eða út að labba.  Bara hjólað svolítið til og frá vinnunni.  Alltaf eitthvað um gesti á hverjum degi. (þar endaði laugardagspistillinn - það komu gestir!) Nú er kl. orðin 15 á sunnudegi og ég búin að vera vakandi síðan einhverntíman í nótt. Það komu nefnilega kærkomnir gestir  verulega snemma, þennan morgunin.  Guðfinna og Jónki, frændsistkyni mín og Snæþór með þeim.  Þau voru að athuga hvort það væri allt í lagi með Akureyringa, sem það auðvitað er ekki, en það er nú önnur pólitík.  Ég var að fara í ferð kl 06:30 og náði að hafa þau í smá tíma áður.  Alltaf gaman að fá skemmtilegt fólk í heimsókn og takk fyrir það - ef þau lesa þetta. Jamm...., ég var í ferð með breta og ameríkana í hálf leiðinlegu veðri, en þetta var hress og skemmtilegur hópur.  Og bílstjórinn maður!!!  Bráðhuggulegur ungur strákur sem stökk inn í hlutverkið, í fríi frá sjómennskunni.  Hann var kannski aðeins of léttur á pinnanum og stundum loftaði undir rassa þeirra sem aftast sátu, en í sárabætur  fengu þau týmri tíma í minjagripaverslun í Reykjahlíð.  Þeir eru skrítnir þarna fyrir austan.. Þegar það eru 50 rútur á ferðinni, eins og í dag, þarf töluvert langan tíma í klósettstopp.  Þeir sem eiga og reka þessi klósett eru yfirleitt með einhverja sölu líka eða öllu heldur,  klósettin eru svona auka sörvis.  Það sem þeir skilja ekki er, að fólk verslar ekki á meðan það stendur í löngum biðröðum eftir því að komast að skálinni og þar af leiðandi er ekki vinsælt að rúturnar séu að stoppa á þessum stöðum.  Maður hefði nú haldið að kúnninn væri eftirsóttur og ef sett væru nokkur klósett í viðbót, losnuðu allir við vandræðin.  Eitt er alveg öruggt..  Fólk verður að komast á postulínið.

Þar sem ég er búin að uppgötva það að "tipsið" fer eftir því hvað ég syng mikið, söng ég heilan konsert fyrir þau á heimleiðinni.  Og viti menn..  Vasarnir fylltust af dollurum.  Nú er ég að velta því fyrir mér hvort ég geti ekki samið enska texta um náttúru Íslands við t.d. Bítlalögin, eða þekkt kántrílög.  Þá þyrfti ég líklega að hafa með mér peningakassa, ef ekki fjárhaldsmann,  fyrir allt sem inn kæmi. Ég ætti líka auðveldara með að muna hin ýmsu orð sem ég á það til að týna í sellugrautnum uppi í hripleku risinu. O-já..  Svona gengur það þessa dagana.  En nú er ég að hugsa um að leggja mig.   Góðan dag!!! 


Tuskudagur.

ÓákveðinnÞað er sko tuskudagur í dag.  Ég var nú eiginlega búin að ákveða að þvo ekki einn blett á þessari fjárans eldhúsinnréttingu, en ég gafst upp.  Stökk upp á eldhúsbekkinn og kíkti.  Það var ekki fögur sjón sem við blasti. Ég sótti mér tusku, pottasvamp, fötu og  heitt vatn með slatta af blautsápu, - sem er það besta sem maður notar á fituóhreinindi -  og hófst handa.  Í útvarpinu var ungur píanóleikari að spila af mikilli ástríðu og ég náði sömu ástríðu við þvottinn. Um það bil sem hann var búinn, kláraði ég að þvo ofan af skápunum.  Þulan á rás 1 byrjaði að romsa heil ósköp. Ég opnaði skápinn yfir viftunni og ruddi þaðan út meiri ósköpum.  Þetta var eins og skipulagt hjá mér og rás 1. Það á aldrei að setja upp skápa sem eru ill aðgengilegir.  Þeir hafa þá tilhneigingu að fyllast af allskonar smálegu dóti, ljósaperum, kertum, servéttum, plástri, fæðubótarefni (sem  var runnið út Skömmustulegur), pakkaböndum og alls lags krúsum og kertastjökum. En nú er skápurinn kominn með annað hlutverk og það er vel, því plássið í eldhúskrílinu er ekki mikið.  Svo finnur maður alltaf eitthvað sem er skemmtilegt í svona törnum.  Ég fann stílabók sem innihélt fullt af vísum.  Mundi ekki einusinni eftir að hafa skrifað þær. Ég fór með hana og tróð henni í tímaritaboxið sem geymir skáldskapinn og sá þá að þar er verk að vinna líka.  Það borgar sig ekki að hreyfa of mikið við draslinu, því eins og allir vita sem til þekkja, er ég sérfræðingur í að stökkva úr einu í annað.   Ég tók mér bara smá hlé til að lesa póstinn minn og freistaðist þá til að skrifa þetta......    Nei, áfram með hreingerninguna......       


Dæmalaust......

Er það ekki alveg dæmalaust hvað dagarnir líða hratt.  Líklega verð ég að fara að tileinka mér kunnáttuna  um markmið og áætlanagerð.  Skrá niður hvenær verki skulið lokið og hvað þarf til, til að ljúka því.  Ég er svo fljót að breyta um stefnu og skipta um skoðun. Nú hlær einhver hátt - trúi ég.  En þetta er mitt líf og það bitnar bara á sjálfri mér ef ég er með einhverja snúninga.  Ég var að skrifast á við kunningja minn á MSN.  Hann tók alla lækna af lífi, fyrir það, að þeir væru að hlaða öll börn landsins full af rítalíni.  Ég var ekki alveg sammála honum (að sjálfsögðu) og benti honum á að oft fara foreldrar með óþægu börnin sín og heimta róandi handa þeim.  Ofvirkni er erfiður sjúkdómur og barn sem er haldið henni hefur ekki einbeitingu og á oft mjög erfitt félagslega.  Óþekkt (eða sjálfstæði) er allt annað.  Þetta varð heillöng romsa hjá okkur og nokkuð skörp á köflum.  Ég tel mig tala af nokkuri reynslu, þar sem ég var í æsku, óþekkasti krakkaormur norðan Alpafjalla.  Hvað skyldi nú hafa gerst ef ég hefði verið sett á Rítalín?  Mamma og pabbi hefðu örugglega átt rólegri daga, en ég hefði ekki lært nema brot af því sem ég lærði af öllum mínum mistökum og forvitninni, sem var  og er mér eðlislæg. Það kostar tíma og fyrirhöfn að eiga börn.  Ef við ætlumst til þess að þau séu öll steypt í sama rólyndismótið, erum við ekki á réttri braut.  Ég horfi á barnabörnin mín og í sumum þeirra sé ég sjálfa mig og hugsa með mér að foreldrarnir eigi eftir að takast á við eitt og annað, en ég veit að þessi börn verða fljótt mjög sjálfstæð. Það er góður eiginleiki að vera sjálfstæður.  Það er hins vegar meira af hættum á vegi þessara barna í dag en var þegar ég var að alast upp. Nei, samfélagið verður ekki læknað með Rítalíni, en kannski það gæti lagast ef við hjálpumst að við að breyta því með því að vera meira til staðar fyrir okkar nánustu og ræða opinskátt um tilfinningar og lífsgildi.  Heimili eiga að vera hlý og barnvæn, en ekki sýningareintak af naumhyggju tískunnar, þar sem ekki sést hlutur eða mynd úr fortíð foreldranna. Líf okkar er samsett úr mörgum þáttum og þá ekki síst áhrifum þess liðna.  Það er sjálfstæði að lifa ekki eftir uppskrift tískuhönnuða eða kaupæðismeðaltali kunningjanna. 

En nú er ég búin að sleppa mér í allt annað en ég ætlaði að vera að gera.  Dæmigert!!  Það er alveg spurning hvort ekki sé hægt  að fá einhverskonar "flandurafréttara" hjá læknum þessa lands?    

     


Svefnsýki

 ZZZ..ZZ..zzzz..zzzz.  Það er ekki gott að sofa af sér fríið.  Svaf fram yfir hádegi í dag og sofnaði aftur yfir fréttunum í kvöld.  Það var líka langur dagur í gær:  Fór á fætur kl. 5:30, til að mæta í stærsta skip sem koma mun í sumar.  Það voru "aðeins" 2700 farþegar um borð og 900 starfsmenn.  Teresa "fósturdóttir" fór líka.  Ég þurfti að troða í hana íslandssögunni, jarðsögunni, náttúrufræðinni og samfélagsfróðleiknum á met tíma.  Mér finnst hún flott, að láta sig hafa það að fara.  Þetta gekk allt ágætlega hjá okkur báðum - auðvitað.  Seinni partinn fórum við svo á Dalvík, með viðkomu í fjörunni við Ytri-Vík og týndum nokkra steina. Í dag kom Kolla mín með stelpurófurnar sínar.  Við dunduðum okkur, fórum og keyptum kleinur og ís, löbbuðum til Önnu og lékum við Ævar Ottó.  Helstu fréttir í fjölskyldunni eru þær að Inga og Toni eru að gerast bændur í Syðra Holti í Svarfaðardal.  Þetta eru miklar gleðifréttir fyrir þau öll og okkur hin líka. Svona geta óskirnar ræst þó þær virðist stundum fjarlægar.

Á morgun ætla ég að hefjast handa við að tæma litla herbergið.  Það er komið að því að fara að framkvæma veggjabrotið.  Líklega verður þetta bara gaman þegar upp er staðið.

Farið varlega í umferðinni!!!!  


Þegar ég fór í hundana....

Þið ráðið hvort þið trúið mér eða ekki, en hérna á dögunum gerðist það að skapið mitt fór alveg í hundana.  Það var ekki nóg með það, - heldur fóru mínar fögru tær sömu leið.  Það vildi þannig til, að á fimmtudaginn fyrir þjóðhátíð, brást mér þolinmæðin að bíða eftir því að "verðlaunalóðin" við húsið yrði slegin.  Tilætlunarsemi mín ætlaðist til að einhver hinna þriggja íbúðaeigendanna sæi um fyrsta slátt þetta árið.  En þar sem ekkert hafði gerst í málunum og allt skal vera prýtt og huggulegt á þessum merkis degi, þeyttist ég á Möstinu mínu út í Byko og tók á leigu flotta sláttuvél, með drifi á öllum og safnara aftaná.  Ég draujaði græjunni heim og eftir að hafa komist að því að þeir sjúga rándýrt bensínið af tanknum áður en vélarnar fara út, skellti ég mér á hjólinu upp að BSO og keypti nokkra dropa.  Tankurinn fullur og allt til reiðu..  Vélinni startað, drifstönginni sleppt og gömlu landbúnaðarnasirnar þöndust út af eftirvæntingu eftir lyktinni af nýslegnu grasi.  PANG!!!!!!  Ég hrökk í háaloft og missti næstum af mér tásuskóna, sem eru þó grónir fastir við mig.  PANG!! PANG!! Ógurleg skothríð drundi við og upp gaus megn lykt svo að sjálfvirki lokunarbúnaðurinn í nefkokinu skall aftur.  Ég sleppti bæði bensíngjöf og drifi og leitaði skjóls í ofboði.  Þar sem ég stóð í felum með nefið klesst upp við kalt, fjögura tommu svert rör  snúrustaursins, gægðist ég sitt hvoru megin við hann í leit að hryðjuverkamönnum.  Það var grafarþögn, dautt á vélinni og hvergi hreyfingu að sjá.  Allt kvikt í mílu fjarlægð hafði leitað skjóls svo ekki sást svo mikið sem ein fluga.  Eftir dágóða stund vogaði ég mér að koma úr felum og gá fyrir húshornin.  Þar var engan að sjá heldur.  Ég herti upp hugan og ákvað að deyja bara  á hetjulegan hátt - við sláttinn, frekar en dyljast lengur á bak við staurinn.  Vélin ræst í annað sinn og drifstönginni sleppt.....   PANG!PANG! PANG! PANG!!!! Með hjartað í gollurshúsinu, áræddi ég að opna aðeins fyrir aðra nösina.  Ohhhh......   Holy shit!!  Þvílík ólykt!!  Í annað sinn sleppi ég stýristólunum og vélin þagnar.  Mér til gleði fann ég fyrir  skynsemis-ögninni minni (sem hafði líka flúið).  Að hennar fyrirmælum, hóf ég rannsóknir á vetvangi.  Ég rykkti stóru gulu plasttrommunni af sláttuvélinni og hellti úr henni á nýsleginn blettinn.  Þarna blöstu  við mér  grjótharðar staðreyndir árásarinnar.  Hundaskítur......   Innanum nokkur söxuð fíflablöð og örfá strá, var haugur af sundurhöggnum lortum og lyktin var svo megn að hún hefði slegið við hvaða kamri sem var. Ég fann hvernig geðprýði mín dró sig í hlé og blóðþrýstingurinn hækkaði.  Blótsyrðahryna þrýstist út um raddböndin og hugsanirnar urðu verulega skítlegar.  Ég gat ekki látið það spyrjast út að ég hefði skilað rándýrri sláttuvélinni til baka án þess að hafa klárað blettinn. Illu er best aflokið..  Ég hrifsaði stærstu þvottaklemmuna af snúrunni, skellti henni á svívirt nefið og rykkti maskínunni í gang.  Á met tíma hafði ég flötinn af og skeytti engu þó skothríðin heyrðist yfir í Vaðlaheiði.  Það var kannski eins gott að ræðurnar mínar druknuðu í hávaðanum, því þær voru ekki hæfar eyrum viðkvæmra.  Það bætti svo ekki úr skák þegar vélin festist í stórri holu.  Þar höfðu hundarnir gert tilraun til að grafa sér leið, burt úr þessu skítapleisi.  Ég kláraði verkið og er stolt af því, en þolinmæði mín er farin í hundana og ég gef SKÍT í að slá þetta lóðarrassgat aftur.Öskrandi    

Fæ mér ekki hund - bara svona sett í garðinn minn!!    


Sælt er að eiga sumarfrí.............

Bahhhhh......  Hurðin féll í lás og ég dæsti af mikilli innlifun, þegar ég startaði Möstumöstinu mínu og rúllaði (á löglegum hraða Glottandi) niður Kaupangsstrætið.  Ég var líka svakalega dugleg í dag.  Hreinsaði algerlega til á skrifborðinu mínu, raðaði kvittunum í möppu, reiknaði út og skrifaði reikninga og tölvupóst,  þurrkaði svo af tölvuskriflinu til að fullkomna verkið.  Svo eru starfsmennirnir mínir svo flottir að ég treysti þeim 150%.  Þetta gerist ekki betra.  Hlæjandi

Víbrandi friðarspillirinn pípir a-h-d-g tónana sína og heimtar að ég svari.  SBA að sjálfsögðu.  Í símanum er þessi glaðlega elska sem minnir mann á að það líður að nýrri ferð.  Hún er alveg einstök.  Það er nokkuð sama hversu klikkað ástandið er hjá henni.  Hún er alltaf vinaleg og hlæjandi.  Góður kostur það, - enda á ég í mestu vandræðum með að segja nei við hana.  Það minnti mig á að fara í Bókval og kaupa mér möppur, fuglakort og plöntukort.  Svo er að setjast með skærin og rista kortin niður og raða þeim í plastmöppurnar.  Þessa hugmynd gaf mér kollegi minn og sagðist alveg sleppa við að reyna að muna öll nöfn þessara flokka.  Ekki veitir mér af að losna við þann vandann, enda man ég ekki nein nöfn nema mitt eigið - hehehe..... 

Bráðum skal ég skrifa eina lygasögu hérna inn.  Ég verð að reyna að halda mér í þjálfun á því sviði.  Man ekki einusinni hvað er orðið langt síðan ég hef skáldað eitthvað upp - og það gengur ekki.

Bæ í bili...... 


Erfiðir dagar..

Dagur er liðinn, komið er kvöld og kát er hin litla hjörð. Nú hefur æskan óskipt völd um allan Skagafjörð.  

Líklega hljómar þessi texti hanns Gísla heitins í Mikley, í Skagafirði þessa dagana, við lagið "Kvöldið er fagurt".  Annars virðast upp poppaðir "Fákar" vera aðal kikkið þar vestra nú um  þessa  landsmótsdaga. En kvöldin eru fögur  og dagarnir hafa ekki verið síðri.  Ég var að koma heim eftir skemmtillega leiðsöguferð með breska eldriborgara.  Fróðlegt og gefandi að eyða tíma með jafn jákvæðum hópi, þrátt fyrir hækjur, hjólastóla og  hæga yfirferð.  Í gær voru það unglingarnir frá norðurlöndunum.  Öllu hraðara ferðalag  og meiri gauragangur.  Ég verð nú samt að viðurkenna að þó ég væri alveg útkeyrð eftir 16 klukkustunda vinnudag, þá fannst mér ég vera 20 árum yngri eftir að hafa ærslast með þeim þennan tíma.  Á morgun er síðasti vinnudagur í Laut, fyrir sumarfrí.  Veðurspáin er góð og tilhlökkunarefni að geta notið næstu daga í afslöppun.  Bróðir Hjalti fór heim af spítalanum í dag og ég vona að sveitaloftið heima hressi hann og styrki fyrir næstu törn í ferlinu.  En nú ætla ég að setjast aðeins út á tröppur og njóta þess að horfa á glórauða skýjahnoðrana á hvelfingunni áður en ég fer að sofa.  Sjáumst seinna.                                           


Peningagræðgi

GráðugurJá, já...   Peningagræðgin er alveg að fara með mig.  Nú er ekki lengur pláss á deginum til að vinna báðar vinnurnar mínar. Ég þarf að fá smá frí úr vinnu 1 til að komast tímanlega í vinnu 2, en ég vann reyndar svolitla yfirvinnu í dag til að samviskan gerði nú ekki alveg útaf við mig á morgun þegar ég smygla mér út.  Innbyrði slatta af spirolina og C vítamíni til að hafa úthald í ferðina á morgun kl.15, en þá fer ég með fulla rútu af vina-bæja-móts-unglingum í Mývatnsferð og verð í 8 tíma. Markmiðið með þessu öllu?  Ja, t.d. er ég búin að ákveða að fara í sólina aftur næsta vetur.  Það ætti eiginlega að setja soddan ferðir í lög...  Allir til sólarlanda í a.m.k. eina viku á veturna.  Það passar að juða af sér jólaspikið og skella sér svo í febrúar - mars.  Svo er ég alltaf í startholunum með sleggjuna.  Ætla að brjóta niður einn vegg og stækka eldhúsið.  Það kostar  ekkert að brjóta niður, en það kostar að lagfæra kofan eftir þá árás.  Þetta eru nú markmiðin.  Var reyndar búin að ætla mér að ná í einn föngulegan, ríkan karl, en þeir eru allir uppseldir í bili, held ég.  Ef lesendur vita um einhvern, þá endilega látið mig vita.  Hann þarf bara að vera fallegur, þolinmóður, með próf á þvottavél, ryksugu, uppþvottabursta/vél(sem hann skaffar), þola mússíktilraunir húsfreyjunnar, vera góður nuddari og svo þarf hann að vera vel samræðuhæfur.  Það síðast talda er algert möst.  Fýldur Vissi það!!  Þið þekkið engan - og  örugglega ekki á lausu!!!

Fór að heimsækja Patta bró áðan.  Hann er allur að braggast og skrapp í skógargöngu  í Kjarnaskóg í dag - og Lystigarðinn líka.   Hildur er búin að vera svakalega dugleg.  Hún víkur varla úr herberginu, nema rétt yfir blá nóttina.  Líklega fær kappinn að fara heim á föstudag ef meltingin verður komin í lag.

Það er sem sagt allt fínt að frétta og ekki skemmir veðrið fyrir.  Sumarfríið framundan og vonandi verður blíða allan júlí.

Kveð í bili með kossi á báðar........


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband