Sól - sól

Svalur  Já, það er glaða sól...  Ég svaf allt of lengi í morgun og fékk bara hausverk af öllu saman.  Líklega er best að drífa sig í sund og dorma þar.  Anna og Arnar eru á fullu að heyja og byggja í Fornhaga.  Ég ætla að heimsækja þau núna um helgina og ærslast með krakkaormunum Auðunni, Ævari, Aroni og Viðju.  Þau tvö síðartöldu eru í heimsókn og verða fram yfir helgi. Ég ætlaði á Jónsmessuvökuna í gær, en var orðin of sein þegar til kom.  Missi af öllu sem er að gerast í þessum bæ.  Í gær skrapp ég til Patta.  Hann er að hressast karlinn, enda blessaður af sjálfri forsetafrúnni.  Hún hafði komið á gjörgæsluna þegar hann var að vakna.  Ekki allir sem fá svona heimsóknir.  Á eftir þarf ég svo að rifja upp fræðin mín fyrir fyrstu rútuferðina á morgun - kl. 07..  Það er ókristilegur tími á sunnudagsmorgni, en ég verð líka búin um hádegi, sem betur fer.Læt þessu lokið í bili.....

Pennaleti

Góðan daginn lesendur góðir.

Klukkan er  06:55 og sólarglæta skín á húsvegginn á móti í augnablikinu. Það er orðið ansi langt síðan ég potaði einhverju hingað inn síðast.  Þetta er bara engin frammistaða hjá mér. Undanfarnar vikur hafa einkennst af gestagangi.  Blessaðir ungarnir hennar ömmu hafa verið duglegir að koma í heimsókn og eina vikuna var gistihúsið "Amma Jóna" fullbókað endanna milli.  Mest var um að vera 17. helgina, en þá gistu hér 7 unglingar í tvær nætur og á laugardaginn komu 23 gestir í allt.  Síðustu dagar hafa svo mest einkennst af símahringingum í tengslum við veikindi Patta, þar sem ég var milliliður upplýsinga.  Á mánudagskvöld var gott að geta upplýst ættingjana um það að aðgerðin langa hefði farið betur en á horfðist. Það ver þó vont að geta ekki heimsótt hann, því pestaróféti sem herjaði á mig kom í veg fyrir það.  En hann losnar ekki svo glatt við mig.  Nú fer ég að verða góð og þá get ég rússað í heimsóknir til hanns hvern dag.  Þriðjudagurinn ver persónulegur sigurdagur fyrir mig, en þá fékk ég loks viðurkennt að mér bæri greiðsla fyrir margra ára akstur á vegum vinnunnar.  Dæmalaust bull allt saman.  Nú fer að líða að sumarfríinu og þá hefst hin vinnan.  Ég verð "í skipunum" og fer, til að byrja með, 14 ferðir á 17 dögum og flestar í Mývatnssveit.  Þá hefst líka endalaust silungsát, því það er alltaf það sama sem boðið er upp á þarna fyrir austan.

Læt þetta gott í bili.......


06.06.´06

Dagur sem segir sex að kveldi kominn og margt búið að stússa.  Úlfsstaðasystur, Kollu börn, komu og voru hjá ömmu, meðan foreldrarnir fóru að jarðaför.  Við brölluðum margt í Laut en  fórum  í sund eftir það og dunduðum þar í 2 tíma.  Eftir að hafa sullað okkur þreyttar fórum við í Nettó og keyptum pylsur og ís í kvöldmatinn.  Það hafa þá verið 5 af barnabörnunum hjá mér síðustu 2 daga og á morgun koma Ingu börnin yngri og gista.  Þá á ég bara eftir að hitta Elísu og er reyndar að hugsa um að fara austur um helgina, ef veðurspáin er góð. Svo kom neyðarhringing úr Ránargötunni, frá Önnu og Arnari.  Dyrabjallan var biluð og var farin að hringja stanslaust, öllum til ama að sjálfsögðu.  Við Arnar gerðum stóraðgerð á græjunni og nú boðar hún gestakomur mjög settlega eins og vera ber. Litli Ævar Ottó (sem er ekkert lítill og hefur aldrei verið) heldur bara áfram að stækka og stækka.  Það er eins gott að fara að byggja húsið, því það hefði orðið verulega þröngt um þau annars.  Nú er ég þreytt og sæl og ætla að fara að leggja mig.......................


Dagur 1 í bloggi.....

Tala af sér  Jæja...  Þá er að koma sér af stað í skrifin.  Hvítasunnan að verða liðin og ég drattast til að koma mér upp þessari síðu, frekar en að gera ekki neitt.  Það er annars ekki rétt.  Það er alveg sama hvort maður liggur flatur í sófanum eða er á þeytingi einhversstaðar... alltaf er maður að gera eitthvað.  Þó ekki sé nema blikka augunum.  Veðrið - blessað veðrið...  Það er alltaf hægt að segja eitthvað um það, sama hvernig það er og núna er það hlutlaust, sólarlaust, rigningalaust, frostlaust, en dæmalaust notalegt.  Eruð þið nokkuð að undra ykkur á stærðinni á letrinu?  Það kemur fyrir að ég nenni ekki að setja gleraugun á nefið og þá er gott að sjá hvað komið er á skjáinn, án þess að þurfa að reka nefið í glerið. Dana Ýr kom í heimsókn og við fórum "út að borða".  Fengum okkur hátíðarhamborgara með öllu og mösuðum stelpumas á meðan.  Á morgun tekur svo vinnan völdin aftur.  Það eru bara tveir dagar, því ég fer í frí á fimmtudag og verð í fríi fram yfir helgi.  Fer með Ingu Mæju og börnunum í Vestmannsvatn á fimmtudaginn.  Aron ætlar að dvelja þar í nokkra daga og jafna sig eftir Bubba tónleikana sem hann er á í dag. Auðunn Orri er að koma í heimsókn til ömmu og þá verðum við að skreppa i búðina svo við getum bakað okkur pönnsur eða köku.   


c_documents_and_settings_vkg_my_documents_my_pictures_au_unn_i_skolanum_1_bekk.jpg

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband