Færsluflokkur: Bloggar

Allt sem við getum gert - en gerum ekki.

Í augnablikinu er ég svo bullandi upptekin af því að ég get gert, nánast allt sem mig langar til, en geri ekki. Ég er nokkurn vegin í góðu lagi - alla vega líkamlega. Hausinn hefur reyndar alltaf verið svolítið kúnstugur og fullur af allskonar dæmalausum hugdettum, en samt sem áður talist nokkuð heill.  Þetta teljast mikil lífsgæði og ef vegið er á meðaltals vogaskál jafnaldra minna, telst ég vera þó nokkuð heppin.  Hvað geri ég svo með þessi lífsgæði mín? Allt of mörgum stundum tapa ég í aðgerðaleysishólfið.  Ég er þó ekki að segja að þessar stundir ættu allar að vera vinnustundir. Það er nefnilega þannig að gildi þeirra stunda, sem eytt er í félagsskap annara, er vanmetið.  Ég vinn við að fylla upp í félagslega þörf fólks, en gleymi ansi oft að næra eigin þörf, með uppbyggilegum félagsskap, utan vinnunnar.  Síðastliðna helgi sat ég þing VG í Reykjavík. Það var svolítið fyrirkvíðanlegt að sitja á rassinum í 2 daga, allan daginn.

Þegar ég kom heim, fann ég að skrokkurinn var svolítið slæptur, en sálin var argandi af fjöri. Ástæðan var sú, að ég hafði fyllt ærlega  á félagsþarfatankinn. Allt annað umhverfi - allt önnur umræða - krefjandi málefnavinna - nýjir  kunningjar og endurnýjuð kynni við aðra.  Þess ber þó að geta, að ég er og hef alltaf verið, mikið fyrir tilbreytingar og nýjungar.  Þetta vita allir sem til mín þekkja. Einhversstaðar á leiðinni missti ég frumkvæðið, að bera mig eftir þessari næringu sálarinnar. Nú sit ég hér - alveg hissa á því ástandi sem var "óvart" orðið daglegt brauð. Á þessu umrædda þingi, sá ég marga einstaklinga sem búa ekki viðsömu lífsgæði og ég,  þ.e. að geta borið sig um, hjálpartækjalaust,  á tveim fótum, eða að geta talað eða fylgst með án túlks. Ég fann fyrir skömminni sem skreið inn í meðvitundina og klóraði egóið. Þetta dugmikla fólk lét ekkert aftra því að vera þátttakendur í lífinu og virðing mín fyrir öllum þeim hetjum sem búa við skert lífsgæði, varð risavaxin. Klóraða egóið er enn dálítið pirrandi - aðallega af því að ég skammast mín.  Eins og þið lesendur hafið kannski meðtekið í síðustu pistlum, þá  hef ég verið að væla um þreytu og vesöld, aftur og aftur.  En það er aldrei of seint að iðrast og nú ætla ég að rjúka á dyr..   Ástæðan?  Jú, - ég ætla að skella mér í skemmtilegan félagsskap - einhversstaðar. 

Far þú og ger slíkt hið sama.  


Hetjur dagsins.

Ég er stolt af handboltastrákunum, jafnvel þó þeir töpuðu með einu marki fyrir DönumPinch. Var bara ánægð að hafa þá á skjánum svo ég hefði um eitthvað annað að hugsa en klikkun dagsins.  Sumir dagar virðast hafa þá tilhneigingu að á þá safnast allskonar áreiti sem virðist engan enda ætla að taka.Frown Ég er þó ánægð með það að eiga nægan styrk til að takast á við þessa eldspúandi dreka.  Einhvern tíman hefði ég lotið í lægra haldi og látið mig hverfa, en ég er orðin svo hörð í baráttunni að það skal þurfa meira til en það sem á gengur.  Það glittir líka alltaf í lýsandi stjörnur og þá er bara að elta þær uppi og nýta skin þeirra.  Mitt í allri ringulreiðinni fékk ég símtal og það var eins og að fá stóran blómvönd og konfektkassa með.  Vinir eru þyngri á vogarskálinni enn nokkur gullklumpur og þessi var þungavigt dagsins.  Ég held líka að forlögin kippi í taumana, þegar þeim finnst nóg komið, og sendi eitthvert haldreipi til að toga í, svo ekki flæði yfir hausinn. Halo

En svo ég hætti nú að velta mér upp úr veseninu, þá hafa líka gerst góðir atburðir.  Um helgina tók ég þátt í að flytja Önnu Guðrúnu og fjölskyldu, í Hörgárdalinn.  Þau fengu leigðan bústað til að búa í, þar til húsið þeirra í Fornhaga verður tilbúið. Svo berast batnandi fréttir af Tryggva.  Fyrir þá sem ekki skilja samhengið, þá er hann maðurinn sem lenti í snjóflóðinu og Ranveig (það er bara eitt n) konan hanns, er kær samstarfskona mín.

Þá er það þetta tvennt sem umbreytist á örskots hraða.  Það er veðrið og pólitíkin.  Eins og svo oft áður, verður það síðarnefnda hringlandi vitlaust, þegar kosningar nálgast.  Frjálslyndir eru kannski ekki svo frjálslyndir eftir allt saman og ekki alveg sammála um  merkingu orðanna  "rekin" og "sagt upp", "klofin" og "óklofin".  Eldri borgarar og öryrkjar skella sér í slaginn og frekar en að sitja heima, skunda þeir tvíefldir fram - í tveim flokkum - en með eitt og sama baráttumálið.  Það var svolítið pínlegt að fylgjast með forystumönnunum, reyna að skýra mál sitt, í kastljósi hér um kvöldið.  Geir Haarde skilur ekkert hvar í ósköpunum hægt er að finna fátæk börn á Íslandi, sem er ríkast og best í allri Evrópu.  Svo má nú orða aðeins rekstrarafgang bankanna.  Þar hleðst gullið upp og er komið yfir læsilega lengd í núllum.  Merkilegt að þeir skuli nú ekki fara að lækka aðeins útlánsvextina hjá sér.  Mig minnir endilega að okurvextir séu bannaðir með lögum (kannski úr JónsbókWoundering ?) 

Ég er að hugsa um að ræða frekar um veðrið.  Það er skemmtilegra viðfangsefni.  Í dag kom smá rigningarúði og bleytti götur og gangstéttar.  Það mynduðust þessi stórhættulegu skilyrði þegar rakinn frýs og skyndilega er allt orðið stjórnlaust, bílar og fætur. Það hafa örugglega einhverjir fengið skell, þó ég slyppi - naumlega.

Kveð í bili.Whistling


Dulúð og draumar

Ískaldur raunveruleikinn blasti við, þegar ég gekk út úr vinnunni minni kl 16:30 í dag.  Ég settist inn í jökulkalda og hélaða Möstuna og startaði,  klappaði henni á stýrið þegar hún hökti í gang, eins og venjulega.  Mikið á ég gott að eiga svona magnaða bíldruslu.  Ég dreif mig á bensínstöð og lét kanna frostlöginn.  36° - sagði höfðinginn sem mældi - og ég ók ánægð í burtu.  Kom svo við í Hagkaupum og verslaði mér hlýja peysu í tilefni af 20 gráðunum.  Sérkennilegt var um að litast á Eyrinni.  Á sumum stöðum var dimm þoka - eða ísreykur,  eins og það er víst kallað, við þessi skilyrði.  Tré og runnar voru í hrímhvítu klæðunum og það glitraði á allt eins og það væri úr gersemum gert.  Og auðvitað eru þetta gersemar.  Það er ekkert auðveldara en að fleyta ímyndunaraflinu af stað og horfa á litla frostálfa hoppa grein af grein, þræða kristallana upp á hár sitt og dansa í bláleitum bjarmanum.  Þeir dansa í hringi og það hljómar í hörpum vetrarins.  Ég velti því fyrir mér af hverju álfar, dísir og smáverur skjóta alltaf upp kollinum í huga mér, þegar ég hrífst af fegurð náttúrunnar.  Kannski ég ætti að spyrja sálfræðinginn að þessu.  Hann gæti mögulega fundið það út að ég væri ó-jarðtengd - eða kannski of-jarðtengd.  Hvort heldur sem er, þá gleðst ég yfir því að eiga þetta ímyndunarafl og vil endilega auka við það, frekar en að fæla smáverurnar mínar í burt.  Kannski er ég smávera í álögum í mannheimi.  Þá fer nú að verða skiljanlegt af hverju ég er eins og raun ber vitni.  Ég man,  þegar ég las Dísu ljósálf og Alfinn álfakóng, þá gat ég verið með í sögunum, skriðið milli sefstráanna og falið mig í skegginu á Alfinni.  Ég á líka búálfa.  Þeir eru hnuplarar og flakka með eigur mínar stað úr stað.  Stundum tala ég við þá, en þeir eru ekkert sérstaklega skrafhreyfnir.  Það gæti svosem verið að einn og einn hefði lent óvart í ryksugunni, jafnvel þó hún sé ekkert sérstaklega mikið notuð.  Það er þó bót i máli að ég álít þá vel synda svo það ætti ekki að ergja þá mikið að fá sér eina og eina salíbunu.  Nú ætla ég að bæla mig og gá hvort ég hitti eitthvað af þessum ættingjum mínum í Draumalandinu.   


Orkureikningurinn

Eitt af föstu liðum áramótanna er að fá uppgjör fyrir orkunotkun ársins.  Þessi uppgjörsreikningur er frekar ólæsilegt blað með svo og svo mörgum rúmmetrum vatns og öðrum upplýsingum um kWh.  Ekki er ég að rengja að rétt sé með tölurnar farið, en það er sérkennilegur háttur hafður á þegar kemur að niðurstöðu greiðslunnar.  Ég hafði borgað aðeins of mikið fyrir heita vatnið, en rafmagnsnotkunin hafði farið yfir áætluð mörk.  Það sem ég á í erfiðleikum með að skilja er að það er ekki gert upp á milli liðanna.  Það sem ég hef ofgreitt fer á INNEIGN og liggur þar til næsta uppgjörs, en skuldina af rafmagninu skal ég greiða.  Fyrir árið 2006 er þetta svosem engin veruleg upphæð, en árinu áður lenti ég í því að hafa ofgreitt, samkvæmt áætlun,  yfir 70.000 krónur í heitt vatn.  Þessi upphæð átti svo bara að liggja hjá Norðurorku þar til ég hefði eytt upp í hana.  Það hefði tekið rúmlega 1 ár. Á sama reikningi var ég krafin um 24.000 í rafmagnskostnað og var sá reikningur farinn til innheimtu í bankann minn. Í ár er ég að hugsa um að sleppa því að sækja inneignina og sjá hvort það verða ekki hagstæðir vextir á upphæðinni þegar ég fæ næsta uppgjörsblað. Mér þykir líka áhugavert að vita, hvers vegna ekki er hægt að draga inneign á öðrum liðnum frá skuldinni á hinum, áður en reikningurinn er sendur. Það þarf enginn að segja mér að það sé svo erfitt. 

Í fyrra, þegar ég æddi í reiði minni, upp á skrifstofu Norðurorku og krafði þá um inneignina mína (sem ég fékk eftir röfl og pex), spurði ég um ástæður þessa.  Svarið sem ég fékk var kostulegt.  "Fyrirtækin verða að hafa þetta aðskilið".  Það ætti varla að vefjast fyrir jafn stóru fyrirtæki og Norðurorka er, að aðskilja viðskiptahópna "fyrirtæki" og "einstaklingar", ef þetta er raunin.  Mér finnst það siðleysi af grófustu gerð að halda peningum viðskiptavina um leið og sömu viðskiptavinir eru krafðir um greiðslu.  Það væri einnig gaman að vita hvað gert er, ef skuldin er ekki greidd - þó inneign sé fyrir henni í sama fyrirtæki.

Ég sé það að ég verð að leita svara við þessu á opinberari stað en í þessu bloggi, en ég skora á ykkur að fara yfir orkureikningana og gá hvernig staðan er í raun.  Það gæti farið svo að þú sért ríkari en þú hyggur.


Nú árið er liðið.......

Gleðilegt ár lesendur góðir og takk fyrir það liðna...

Ég hef verið frekar afkastalítil í skrifunum og skelli skuldinni aðallega á leti og andlegan sljóleika.  En nú verður gerð smá betrumbót.  Já, árið er liðið og það leið með ótrúlegum hraða.  Ég fór að velta því fyrir mér hvað ég hefði afrekað merkilegt á árinu liðna - og komst að því að stórafrekin eru líklega fyrirferðalítil, en þau sem gerast dags daglega eru nokkur og hverfa aðallega í þetta hversdagslega amstur.  Eitt af afrekunum mínum er nýlega afstaðið.  Það var að brjóta niður einn vegg í íbúðinni minni.  Já - ég var orðin leið á sjálfri mér, íbúðinni, framkvæmdaleysinu og bara flestu.  Sá að það varð eitthvað að gerast ef ég ætlaði ekki að sigla í svelg letinnar og halda þar til.  Því greip ég með mér kúbein, einn föstudaginn þegar ég fór heim úr vinnunni, horfði smá stund á fórnarlambið og rak svo járnið í gegn um veggklæðninguna.  Fyrst var fyrir þunnt masonitt, síðan gamaldags veggfóður og bara eitt lag af því, þá strigi og loks timbur af öllum tegundum og gerðum að ég minnist nú ekki á stærðir.  Þessi veggur var gerður af mikilli sparsemi og spíturnar  allt niður í örfáa sentimetra á lengd.  Það eina sem ekki var sparað voru naglarnir.  Þvílík reiðinnar ósköp af nöglum.  Ég dró þá flesta úr - til þess að ekki rykaðist eins mikið.  Svo hamaðist ég við veggbrotið og kláraði að rífa og þrífa á einum degi.  Þarna stóð ég, sveitt og ánægð, í nýja eldhús"rýminu" og lét mig dreyma um framhaldið.  Í huganum varð ég aðalpersónan í "Innlit útlit" og  hannaði nýja eldhúsið í hvelli.  Það eina sem ekki passaði í þáttinn var stíllinn.  Það verður sko ekkert naumhyggjuútlit á mínu eldhúsi.  Nei - ónei...  Það verður algerlega ný tegund hönnunar - með vask í horni og eldavél í öðru horni. Þar með er ég laus við hornin sem gera ekkert gagn annað en taka við allslags dóti sem safnast fyrir.  Það besta við þetta allt er þó það að ég hlakka mikið til að takast á við framkvæmdina sem ég ætla að vinna sjálf, eins mikið og mögulegt er.

Í byrjun desember var mér svo tilkynnt að vinnustaðurinn minn flytti í annað húsnæði.  Það var ánægjuleg frétt, þar sem húsið okkar er löngu hætt að rúma starfsemina.  Vegna þessa var mikið um allslags fundarhöld og skipulagningar síðustu daga ársins og heldur áfram í byrjun þess nýja.  Það er ekki fyrirséð hvenær við flytjum en vonandi verður ekki mjög langt í það.

Ég eignaðist  litla systurdóttur í Danmörku, rétt fyrir jólin.  Það var gleðilegt að frétta að allt hefði gengið vel og sú stutta (Hannah Cristina) er vær og frísk.  Kannski skrepp ég í heimsókn einhvern daginn, út yfir sundin blá, að skoða þennan nýja fjölskyldumeðlim.

Látið ykkur líða vel þar til ég bulla næst.........

 

 


Getuleysi.......

Getuleysi er orð sem kveikir alltaf á hugsun um kynlífsdepurð, en það er líklega skárra getuleysi en það sem hefur verið að plaga mig undanfarið.  Ég er verulega sorgmædd yfir því hvernig ég hef farið með sjálfa mig, keyrt mig út í horn og smá saman reist múra um mig, sem ég á í mestu erfiðleikum með að brjóta niður aftur.  En í gær hófst niðurrifið og upprisan. Með leyfisbréf frá doktor Halldóru upp á vasann arkaði ég til sjúkranuddara og bað hann vinsamlega að losa á mér hausinn, sem  var kominn í sjálfheldu út á öxl og öxlin var að verða hæsti punktur líkamans.  Þessi Adonis brást vel við og handlék sinar og bólguhnúta af lipurð sem, þrátt fyrir tárvotan sársauka, varð til þess að hreyfigetan batnaði.  Ég ætla ekkert að fjölyrða um ástand skrokksins í dag.  Ég gæti hugsað mér það betra.  En hausinn losnaði og þar með víkkaði sjóndeildarhringurinn.  Ég sá að það varð eitthvað að gerast ef ég ætlaði ekki að verða ein af þessum vesælu,  líflausu, sálum  sem ráða ekki við daglegt líf og ég sé of mikið af í vinnunni minni. 
 Fyrsta atriði:  Tiltekt hafin!  Sökum vansældar og getuleysisins, hafa vaxið allskonar haugar hér og hvar í íbúðinni minni.  Það hlýtur að vera nokkurskonar líkamsrækt að hamast við tiltekt.  Teygja hér og beygja þar, þvo í hringi, upp og niður og berja mottur.  Ég ímynda mér að þetta séu sömu hreyfingarnar og í vaxtaræktinni. 
En talandi um sjúkranuddið.  Ég komst nefnilega að því að það er lúxus.  Beiðnin lækkaði ekki kostnaðinn - ónei.  Sjúkraþjálfun skal það vera.  Þar eru biðlistarnir lengri en tárum taki.  Ætti ekki þessari Tryggingastofnun að vera akkur í því að koma sem flestum á réttan kjöl?  Ja - sussu, segi ég nú bara. 
Ef ég væri sprækari, hefði ég farið í framboð og flutt langar tölur um misrétti, óráðsíu og handvammir hins opinbera.  Það verður bara að bíða þess að ég endurfæðist sem Íslendingur og líkurnar á því eru frekar litlar. 
Annað atriði:  Ég ætla að gerast ofur-egoisti.  Læra að segja NEI!  Hætta að vinna meira en ég kemst yfir með góðu móti og sinna meira um sjálfa mig.  Ég eignaðist nýjan hring fyrir stuttu síðan.  Þegar ég horfi á hann á fingrinum, finnst mér ekkert samræmi í því sem ég sé.  Næst er þá að fara í handsnyringu og svo í fótsnyrtingu.  Þetta eru athafnir sem eru óþekktar með öllu.  Ég ætla, sem sagt, að dekra við sjálfa mig. Líklega fæ ég smá samviskubit yfir eyðslunni, en ég set stórt skilti á baðherbergisspegilinn, sem á stendur:  "Ég á þetta skilið".  Svo þegar ég er orðin ánægð með stöðuna, fara sellurnar að virka og ég get farið að skrifa eitthvað annað en þetta neikvæða raus sem ég er sífellt að ausa yfir ykkur.
Þriðja atriði:  Ég ætla að vera betri vinur vina minna og duglegri að rækta sambönd.
Þess vegna ætla ég að hætta þessum skrifum í bili og setja mér það markmið að skrifa  bara jákvæð og skemmtileg bréf í framtíðinni. Þið megið alveg minna mig á það ef ég fer að verða neikvæð aftur.   Svo set ég hlýjar kveðjur sem endapunkt. 




Heilabilun og önnur bilun........

Þær eru stundum skrítnar hugsanirnar.  Ég settist hérna við BLOGGIÐ og ætlaði að skrá mig inn.  En viti menn!!  Ég var búin að tapa aðgangsorðinu út af harða diskinum í hausnum og hamaðist í örvæntingu við að finna það aftur.  Það gerðist ekki fyrr en á fimmta degi!!!!  

En ég er komin inn, eins og þið sjáið og ætla svosem ekki að skrifa mikið núna.  Bara aðeins að segja ykkur frá því að ég erað fara í SUMARBÚSTAÐ MEÐ HEITUM POTTI!!!!  Svalur  Það er síðasti björgunarhringurinn í bili, þar sem ég er gjörsamlega farin á heftingunum og komin með svo mikla vöðvabólgu að ég get varla snúið hausnum. Gráta   Já, heitur pottur og svo er ég að hugsa um að fara með rauðvínskassa og setja slöngu í ventilinn svo ég þurfi ekki að standa upp úr pottinumUllandi.  Ég fer með ýfengna fartölvu og dunda mér við að skrifa dellu til að færa hérna inn á bloggið.  Ég ætti með réttu að vera í fertugsafmælinu hanns Tona á laugardaginn, en ef ég sést ekki þar, þá er ég enn í bleyti.  Það er líka ekkert með útbrunnar tengdamömmur að gera í svoleiðis partýum.

Eins og þið sjáið er ekki heil brú í þessum skrifum hjá mér svo ég er að hugsa um að láta þetta duga í bili.

 


Ferðasagan

Komin heim - fyrir löngu - og búin að ná áttum aftur.  Ferðin var hin besta, þrátt fyrir að bílgarmurinn minn bilaði nokkrum sinnum í stórborginni.  Það var bara til að gera ferðina eftirminnilegri.  Ég lagði af stað eftir að flóðasvæðinu hafði verið sinnt og fyrsti áfangi var í Hjaltadalinn.  Það er skrítið að koma "heim",  sjá allar breytingarnar sem hafa verið gerðar og átta sig á því að það er að mestu nýtt fólk á svæðinu.  Gamli Hólastaður er mynd í minningunni, þó aðal byggingarnar séu ennþá í forgrunni hins ný uppbyggða svæðis. Ég gisti eina nótt hjá Ingu og fjölskyldu á Hofi.  Skrítið að átta sig á því, að það hafi verið síðasta heimsóknin til þeirra á þennan stað, þar sem Inga og börnin flytja, nú í ágúst, í Syðra-Holt. Frá Hofi lá svo leiðin í Úlfsstaði til Kollu og hennar fjölskyldu.  Ég sá róbótan mjólka, fór á Krókinn og  lenti í afmælisveislu.  Eftir að hafa losað mig við rauðvínsvímuna lagði ég svo af stað suður.  Í góðviðrinu ók  ég upp Leirársveit, um Svínadal, yfir Dragháls og um Hvalfjörð.  Það var fallegt um að litast á þessum slóðum og veðrið einstakt.  Það eina sem skyggði á, var blámóðan sem steig upp af verksmiðjukverfinu á Grundartanga.  Það er einkennilegt að halda því fram, að þetta óféti mengi ekki út frá sér. Þegar til Reykjavíkur kom, dreif ég mig til Dísu frænku að sækja lyklana að "Húsinu á sléttunni".  Hún lánaði mér íbúðina sína á meðan hún dvaldi í sumarbústað í Borgarfirðinum.  Ég skundaði svo í Hveragerði til Kolla og Guðnýjar.  Gamli höfðinginn á Hjalla, sem hafði frétt af ferðum mínum, sneri við á leið sinni heim, til að geta spjallað aðeins.  Eftir að hafa hitt alla fjölskylduna og Ödda málara (sem er fastagestur þar) sofnaði ég sætt og rótt í húsbíl þeirra hjóna.  Til Reykjavíkur hélt ég svo um morgunin, eftir kaffi og smurt. Upphófst nú bras ferðarinnar.  Fyrst fór ég í heimsókn á Ásbrautina.  Þar þakkaði Möstið fyrir samveruna og stóð steindauður á bílastæðinu þegar ég kom út.  Eftir að hafa ýtt honum í gang, fórum við Nafna mín í verslunarferð.  Við vorum staddar í Skeifunni, þegar bíllinn drap á sér aftur, á gatnamótum. Ég gat látið hann renna afturábak inn á bílastæði og þar stóð hann og beið eftir Halla bróður, sem kom frá Akranesi til að hjálpa upp á sakirnar. Þegar geymasambandið hafði verið hreinsað og nýju startkaplarnir mínir úrskurðaðir ónothæfir, komst drossían aftur í gang. Ég var þakklát Halla og Guði fyrir að komast nú aftur leiðar minnar.  Um kvöldið hringdi Maggi vinur og spurði hvort ég væri ekki til í að koma á Kringlukrána.  Ég dreif mig og auðvitað á bílnum - sem hikstaði inn á bílastæðið við Kringluna og ákvað að drepast þar.  Þetta var nú að verða svolítið þreytandi.  Eftir tveggja tíma stórgripasýningu á Kringlukránni, ákvað ég að snúa heim.  Ég var svo heppin að vera með tásuskóna í bílnum og eftir að hafa farið úr balltúttunum, arkaði ég af stað upp í Mjódd. Enn einu sinni áttaði ég mig á því, hve margir staðir eru fallegir í Reykjavík.  Ég gekk niður í Fossvogsdalinn, undir Reykjanesbraut og upp með Elliðaánum.  Þessi leið er mjög skemmtileg og það var þess virði að eyða tíma í labbið.  Daginn eftir ýttum við Maggi lífi í bílinn og ég lagði af stað.  Ég var ekki komin nema nokkra metra - eða niður á Bústaðaveg - þegar hinstu bullutök bílvélarinnar liðu um púströrið.  Þar sem ég sat í dauðum bílnum, reyndar ekki alveg í vegi fyrir umferðinni - Maggi farinn í vinnuna og fátt um hjálplega vegfarendur, kenndi ég smá einmanaleika.  En dýrðlingar finnast enn.  Bjössi frændi gerði sér lítið fyrir og húkkaði mig úr prísundinni og dröslaði mér og bílnum heim í skúr til sín.  Til að gera langa sögu styttri, þá fór ég með Patta og fjölskyldu upp á Akranes í fermingarveislu Hjalta Mikaels og naut dagsins.  Daginn eftir hófst svo viðgerð á Dauðarauð.  Altenatorinn ónýtur og í var settur nýr sem Halli bró gaf mér.   Snyllingurinn Bjössi reddaði málunum og ég gladdist mjög yfir því að eiga svona frábæra fjölskyldu. Á mánudagsmorgni var ég búin að fá nóg og hélt heim. Stoppaði í Borgarfirðinum, þar sem Dísa frænka, Heiðrún, Hannes og Hermann Kári voru í sumarbústað, aftur á Hvammstanga, þar sem ég heimsótti sambýlið og sjúkrahúsið.  Heim komst ég svo um kvöldið og var fegin að sjá hellinn minn birtast þegar ég ók inn í Norðurgötuna.


Skemmdarverk

Það er mánudagur og ég ætlaði að vera farin að heiman í fríinu.  Einhverra hluta vegna ákvað ég að fara ekki fyrr en í dag og vera nú ekki að stressa mig að óþörfu.  Vaknaði upp við hringingu kl. 06:?? og var tilkynnt að þetta væri lögreglan.  Ég hentist á fætur með tólið á eyranu og stamaði einhverja vitleysu.  "Ert þú ekki umsjónaraðili í Þingvallastræti 32"?   Jú, það var ég - og þá var mér tilkynnt að ég skyldi koma mér á staðinn strax.  Ég braut allar reglur umferðar á leiðinni upp að húsi, fegin að það var ekki nokkur hræða á ferðinni.  Aðkoman var fremur dapurleg.  Þarna stóðu tveir þjónar laganna á rennblautum tröppum hússins.  Þeir höfðu fengið tilkynningu frá blaðbera Moggans  þess efnis að garðslanga hefði verið blaðalúgunni og skrúfað frá á fullu.  Ég stakk lykklinum í skrána og opnaði hurðina með erfiðismunum.  Það kom flóðbylgja út á móti mér og motturnar syntu í  damminum á forstofugólfinu.  Næst birtust sjúkrabíll og slökkviliðið með dælur sínar og dældu út mörghundruð lítrum af gólfunum. Ég hringdi í umsjónamann húseigna ÖBÍ sem kom að vörmu spori.  Þetta leit illa út og skánaði ekki þegar rannsóknir hófust. Nú, þegar þetta er skrifað, er búið að rífa upp parketið á stórum hluta hússins.  Þar sem gólfin höfðu verið rétt af með timbri og einangruð með steinull, var vatnið  komið um allt og upp í veggjaplötur.  Þetta þýðir að Laut verður lokuð um óákveðinn tíma, meðan viðgerðir fara fram.  Þarna varð mjög mikið tjón sem gæti hlaupið á 1-2 milljónum. 

Það er svo stóra spurningin......  Hverjum dettur í hug að vinna svona skemmdir??  Vonandi finnst skemmdavargurinn og fær sína meðferð. Við höfum okkar grunsemdir, en þær verða ekki opinberaðar, þar sem ekkert haldbært er til að byggja þær á.  Sök bítur sekan.  En nú dríf ég mig í frí og læt aðra um að laga staðinn..........  Næstu skrif verða ekki fyrr en ég kem aftur heim - eftir einhverja daga....     


Heilsuefling í hnotskurn

Jæja - góðir hálsar...  Nú kemur sagan  af því þegar við Anna, Auðunn og Ævar fórum í sundferð með viðhengi.  Þannig var að Anna kom við í hádeginu einn daginn og spurði hvort ég vildi koma með í bæinn.  Þar sem ég var með gesti, baðst ég undan ferðinni, en lofaði að hitta hana seinna að deginum.  Það var samt hún sem hafði samband aftur og sagði mér að hún væri á leiðinni í sund með strákana og langaði að fá mig með.  Jú, jú...  ekkert sjálfsagðara. Við lögðum af stað og Anna fór að segja mér að hún hefði  keypt forláta buxnadrakt í Galleri og vildi endilega draga mig með þangað.  Við röltum upp í bæ og í umræddri verslun keypti ég samskonar drakt og Anna hafði keypt fyrr um daginn.  Þetta gæti orðið einkennisbúningur fjölskyldunnar, ef þið drífið ykkur hinar..  Kjarakaup semsagt...  Svo töltum við upp í laug og sulluðum  í sundi í töluvert langa stund.  Þar kom að við vorum að verða vatnssósa og Ævar, sem var að verða þreyttur á að drekka vatnsblandaða móðurmjólk, var farinn að ókyrrast.  Við Drifum okkur því á þurrt land og ákváðum, meðan við týndum á okkur spjarirnar, að fara eitthvað og seðja hungrið.  Þegar við löbbuðum niður Gilið og vorum að ræða um möguleikana, ákvað amma Jóna (eftir að við höfðum spekúlerað mikið og hafnað rándýrri grænmetisböku á Bláu Könnunni) að það væri rétt að kanna nýjar slóðir.  Strikið!!  Það er staðurinn!!  Fiðlarinn gamli, gjörbreyttur og orðinn að ?????? stað.  Við þrusuðum upp með lyftunni, inn á þennan nýja stað - alveg út á þak.  Það var frábært útsýnið og gott veður - til að byrja með, síðan verra veður og skrítnir gashitarar sem ekkert gekk að kveikja á.  Þjónninn  kynnti fyrir okkur matseðilinn,  tapas-tilboð dagsins..  Auðunn, sem hafði fengið þær upplýsingar niðri að það væru djúpsteiktar rækjur á matseðlinum, pantaði þær - að sjálfsögðu.  "Ja - - - , það er eiginlega hádegismatseðillinn", sagði þjónninn. "En við reynum samt að redda því".  Þar var það í höfn.  Við Anna lásum yfir þessa 5 mat- og drykkjarseðla sem okkur voru færðir (þar af einn sérstaklega ætlaður ungum konum eins og mér!!! Öskrandi)- og áttuðum okkur á því, fyrir rest,  að Fiðlarinn gamli var líklega ódýrari en það sem við sáum.  En tilboð dagsins - 5 rétta tapas á 990- var svosem allt í lagi, svo við slóum til.  Þjónninn fór eitthvað að tala um að hann kæmi bara með dálítið mikið af brauði og solleis!!  Þetta vakti strax grunsemdir, sem áttu eftir að reynast réttar.  Eftir klukkutíma, einn bjór, 20 sneiðar af brauði,  fulla vatnskönnu, og helminginn af rækjunum hanns Auðunns + flutning af þakinu og inn, fengum við diskana (ef diska skyldi kalla).  litlir, hvítir plattar, minni en barnaskókassalok, birtust fyrir framan okkur.  Á hvorum platta voru fimm stykki (nei, bitar - nei, sýnishorn) af tapas!!!!!!!!!!!!!.  Kannski hef ég eitthvað misskilið þetta "tapas".  Við Anna litum hvor á aðra og urðum máttlausar af hlátri.  Þarna var:  einn aspas (mjög lítill - eins og hálfur, visinn blýantur) - ein snakkflaga með salati á (svona þríhyrningur - einn munnbiti), ein snittusneið með parti af skinnkusneið(tveir litlir munnbitar), trépinni með kjúklinga"lund" sem hefur þá verið af einhverjum undra-ofurvöxnum kjúklingi (tveir munnbitar) og eitt djúpsteikt chilli (komst fyrir bak við aðra framtönnina).  Í heildina mátti segja að þetta væri léttskammtaður forréttur. 

Við vorum tiltölulega snöggar að innbyrða þetta allt saman (hin mjólkandi sísvanga móðir hamsaði smáræðið í sig á 10 sek.) og töluðum hástöfum um að það væri farið að rigna og við ættum þvott á snúrunni heima.  Ég dreif mig að borga og enn hlæjandi og svo drifum við okkur niður með lyftunni og heim.  Heima hjá Önnu fengum við okkur stórar sneiðar af konfektköku til að fylla upp í brot af svengdinni sem eftir sat í vömbinni, þrátt fyrir heimsókn á þennan "afbragðs" veitingastað.  Það er alveg klárt að við erum ekki á leiðinni þangað í bráð og ég mun ekki, sem starfandi leiðsögumaður, vísa neinum að versla þar heldur. Ah-h-h-h .... Þeirra tap........  En samtals var þetta mikil líkamsræktarferð = sund og fislétt máltíð, en ég held bara að ég kaupi gulrætur næst.  Þær eru ekki eins dýrar.   


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband