Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Þrettándi dagur jóla.

 

Það er komið að lokum jóla, þetta árið.  Þrettán jóladagar að baki og allir hafa þeir sína sögu - ekki bara í minni upplifun, heldur á hver og einn sínar minningar um hvern og einn dag.  Ég eyddi þessum degi í faðmi  nær allrar fjölskyldunnar.  Það vantaði bara Ástu, dóttur, með sinn hóp, í teitið á Úlfsstöðum í Skagafirði.  Tilefnið, fyrir utan að hittast bara, var að borða rif.  Það getur verið að þú brosir lesandi góður, en það að borða rif er ekki bara bara!!!  Þetta er helgiathöfn sem á ekki sína líka, þegar kemur að matarvenjum og siðum.  Matarhefðin er ættuð frá Noregi og þar ofttast nefnd  pinnekjött og þá með annari eldunaraðferð.  Í Færeyjum er það rastekjöt, held ég, eða skerpukjöt og jafnvel etið hrátt.  Í hverju landi er notuð mismunandi aðferð við framreiðslu, en í Úlfsstaða tilvikinu eru grilluð, sigin rifin, borðuð með soðnum kartöflum.  Jössess - hvílíkt góðgæti!!! 

Ég var svo heppin að vera farþegi með Arnari, tengdasyni og Önnu, dóttur minni og þess vegna gat ég leift mér að drekka bjór með matnum - og koníak á  eftir - og meiri bjór.  Halldór tengdasonur er vanur þessum mat um jól, en við í tengdafjölskyldu hanns erum "nýliðar" og það gráðugir.  Þarna voru Inga Mæja og 2 börnin yngri, Anna og hennar fjölskylda, Grétar (X-ið) og ég, ásamt húsráðendum. Eftir langa dvöl og mikið át  fórum við svo heim um miðnættið - gáfum rollum og hestum í Fornahaga í leiðinni og vorum sæl og ánægð, þegar við komumst alla leið á AkurEYRINA. 

 Ég er svo lánsöm að vera í mjög góðu sambandi við fjölskylduna mína og met það ofar öllu.  Hvers virði er það líf sem er eytt í óvild og erjur.  Í mínum huga er það verra líf en ekkert.  Uppstríluð ásýnd hefur ekkert að segja og veldur þrotlausum áhyggjum um að aðrir eigi meira af efnahagslegum sýndarveruleika.  Mitt líf er, sem betur fer, fullt af væntumþykju og umburðarlyndi allrar fjölskyldunnar, við sína nánustu.   Það ber að þakka og því kveð ég þessi jólalok mjög sátt.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband