Þegar ég fór í hundana....

Þið ráðið hvort þið trúið mér eða ekki, en hérna á dögunum gerðist það að skapið mitt fór alveg í hundana.  Það var ekki nóg með það, - heldur fóru mínar fögru tær sömu leið.  Það vildi þannig til, að á fimmtudaginn fyrir þjóðhátíð, brást mér þolinmæðin að bíða eftir því að "verðlaunalóðin" við húsið yrði slegin.  Tilætlunarsemi mín ætlaðist til að einhver hinna þriggja íbúðaeigendanna sæi um fyrsta slátt þetta árið.  En þar sem ekkert hafði gerst í málunum og allt skal vera prýtt og huggulegt á þessum merkis degi, þeyttist ég á Möstinu mínu út í Byko og tók á leigu flotta sláttuvél, með drifi á öllum og safnara aftaná.  Ég draujaði græjunni heim og eftir að hafa komist að því að þeir sjúga rándýrt bensínið af tanknum áður en vélarnar fara út, skellti ég mér á hjólinu upp að BSO og keypti nokkra dropa.  Tankurinn fullur og allt til reiðu..  Vélinni startað, drifstönginni sleppt og gömlu landbúnaðarnasirnar þöndust út af eftirvæntingu eftir lyktinni af nýslegnu grasi.  PANG!!!!!!  Ég hrökk í háaloft og missti næstum af mér tásuskóna, sem eru þó grónir fastir við mig.  PANG!! PANG!! Ógurleg skothríð drundi við og upp gaus megn lykt svo að sjálfvirki lokunarbúnaðurinn í nefkokinu skall aftur.  Ég sleppti bæði bensíngjöf og drifi og leitaði skjóls í ofboði.  Þar sem ég stóð í felum með nefið klesst upp við kalt, fjögura tommu svert rör  snúrustaursins, gægðist ég sitt hvoru megin við hann í leit að hryðjuverkamönnum.  Það var grafarþögn, dautt á vélinni og hvergi hreyfingu að sjá.  Allt kvikt í mílu fjarlægð hafði leitað skjóls svo ekki sást svo mikið sem ein fluga.  Eftir dágóða stund vogaði ég mér að koma úr felum og gá fyrir húshornin.  Þar var engan að sjá heldur.  Ég herti upp hugan og ákvað að deyja bara  á hetjulegan hátt - við sláttinn, frekar en dyljast lengur á bak við staurinn.  Vélin ræst í annað sinn og drifstönginni sleppt.....   PANG!PANG! PANG! PANG!!!! Með hjartað í gollurshúsinu, áræddi ég að opna aðeins fyrir aðra nösina.  Ohhhh......   Holy shit!!  Þvílík ólykt!!  Í annað sinn sleppi ég stýristólunum og vélin þagnar.  Mér til gleði fann ég fyrir  skynsemis-ögninni minni (sem hafði líka flúið).  Að hennar fyrirmælum, hóf ég rannsóknir á vetvangi.  Ég rykkti stóru gulu plasttrommunni af sláttuvélinni og hellti úr henni á nýsleginn blettinn.  Þarna blöstu  við mér  grjótharðar staðreyndir árásarinnar.  Hundaskítur......   Innanum nokkur söxuð fíflablöð og örfá strá, var haugur af sundurhöggnum lortum og lyktin var svo megn að hún hefði slegið við hvaða kamri sem var. Ég fann hvernig geðprýði mín dró sig í hlé og blóðþrýstingurinn hækkaði.  Blótsyrðahryna þrýstist út um raddböndin og hugsanirnar urðu verulega skítlegar.  Ég gat ekki látið það spyrjast út að ég hefði skilað rándýrri sláttuvélinni til baka án þess að hafa klárað blettinn. Illu er best aflokið..  Ég hrifsaði stærstu þvottaklemmuna af snúrunni, skellti henni á svívirt nefið og rykkti maskínunni í gang.  Á met tíma hafði ég flötinn af og skeytti engu þó skothríðin heyrðist yfir í Vaðlaheiði.  Það var kannski eins gott að ræðurnar mínar druknuðu í hávaðanum, því þær voru ekki hæfar eyrum viðkvæmra.  Það bætti svo ekki úr skák þegar vélin festist í stórri holu.  Þar höfðu hundarnir gert tilraun til að grafa sér leið, burt úr þessu skítapleisi.  Ég kláraði verkið og er stolt af því, en þolinmæði mín er farin í hundana og ég gef SKÍT í að slá þetta lóðarrassgat aftur.Öskrandi    

Fæ mér ekki hund - bara svona sett í garðinn minn!!    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband