Getuleysi.......

Getuleysi er orð sem kveikir alltaf á hugsun um kynlífsdepurð, en það er líklega skárra getuleysi en það sem hefur verið að plaga mig undanfarið.  Ég er verulega sorgmædd yfir því hvernig ég hef farið með sjálfa mig, keyrt mig út í horn og smá saman reist múra um mig, sem ég á í mestu erfiðleikum með að brjóta niður aftur.  En í gær hófst niðurrifið og upprisan. Með leyfisbréf frá doktor Halldóru upp á vasann arkaði ég til sjúkranuddara og bað hann vinsamlega að losa á mér hausinn, sem  var kominn í sjálfheldu út á öxl og öxlin var að verða hæsti punktur líkamans.  Þessi Adonis brást vel við og handlék sinar og bólguhnúta af lipurð sem, þrátt fyrir tárvotan sársauka, varð til þess að hreyfigetan batnaði.  Ég ætla ekkert að fjölyrða um ástand skrokksins í dag.  Ég gæti hugsað mér það betra.  En hausinn losnaði og þar með víkkaði sjóndeildarhringurinn.  Ég sá að það varð eitthvað að gerast ef ég ætlaði ekki að verða ein af þessum vesælu,  líflausu, sálum  sem ráða ekki við daglegt líf og ég sé of mikið af í vinnunni minni. 
 Fyrsta atriði:  Tiltekt hafin!  Sökum vansældar og getuleysisins, hafa vaxið allskonar haugar hér og hvar í íbúðinni minni.  Það hlýtur að vera nokkurskonar líkamsrækt að hamast við tiltekt.  Teygja hér og beygja þar, þvo í hringi, upp og niður og berja mottur.  Ég ímynda mér að þetta séu sömu hreyfingarnar og í vaxtaræktinni. 
En talandi um sjúkranuddið.  Ég komst nefnilega að því að það er lúxus.  Beiðnin lækkaði ekki kostnaðinn - ónei.  Sjúkraþjálfun skal það vera.  Þar eru biðlistarnir lengri en tárum taki.  Ætti ekki þessari Tryggingastofnun að vera akkur í því að koma sem flestum á réttan kjöl?  Ja - sussu, segi ég nú bara. 
Ef ég væri sprækari, hefði ég farið í framboð og flutt langar tölur um misrétti, óráðsíu og handvammir hins opinbera.  Það verður bara að bíða þess að ég endurfæðist sem Íslendingur og líkurnar á því eru frekar litlar. 
Annað atriði:  Ég ætla að gerast ofur-egoisti.  Læra að segja NEI!  Hætta að vinna meira en ég kemst yfir með góðu móti og sinna meira um sjálfa mig.  Ég eignaðist nýjan hring fyrir stuttu síðan.  Þegar ég horfi á hann á fingrinum, finnst mér ekkert samræmi í því sem ég sé.  Næst er þá að fara í handsnyringu og svo í fótsnyrtingu.  Þetta eru athafnir sem eru óþekktar með öllu.  Ég ætla, sem sagt, að dekra við sjálfa mig. Líklega fæ ég smá samviskubit yfir eyðslunni, en ég set stórt skilti á baðherbergisspegilinn, sem á stendur:  "Ég á þetta skilið".  Svo þegar ég er orðin ánægð með stöðuna, fara sellurnar að virka og ég get farið að skrifa eitthvað annað en þetta neikvæða raus sem ég er sífellt að ausa yfir ykkur.
Þriðja atriði:  Ég ætla að vera betri vinur vina minna og duglegri að rækta sambönd.
Þess vegna ætla ég að hætta þessum skrifum í bili og setja mér það markmið að skrifa  bara jákvæð og skemmtileg bréf í framtíðinni. Þið megið alveg minna mig á það ef ég fer að verða neikvæð aftur.   Svo set ég hlýjar kveðjur sem endapunkt. 




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já þetta líkar mér, maður setur sig alltaf í síðasta sætið, ég hef tvisvar farið á snyrtistofu og látið dekra smá við mig og kemur maður út sem ný manneskja, svo segir maður við sjálfasig þetta geri ég sko oftar, svo líða mörg ár og aldrei gerir maður neitt í þessu. So go girl :)

solla (IP-tala skráð) 25.10.2006 kl. 09:37

2 identicon

Gaman gaman Já það verður gaman þegar maður fer að sjá þig meira. Eigum við að bregða okkur útfyrir landsteinana.......?????

unnur maría (IP-tala skráð) 27.10.2006 kl. 04:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband