Ferðasagan

Komin heim - fyrir löngu - og búin að ná áttum aftur.  Ferðin var hin besta, þrátt fyrir að bílgarmurinn minn bilaði nokkrum sinnum í stórborginni.  Það var bara til að gera ferðina eftirminnilegri.  Ég lagði af stað eftir að flóðasvæðinu hafði verið sinnt og fyrsti áfangi var í Hjaltadalinn.  Það er skrítið að koma "heim",  sjá allar breytingarnar sem hafa verið gerðar og átta sig á því að það er að mestu nýtt fólk á svæðinu.  Gamli Hólastaður er mynd í minningunni, þó aðal byggingarnar séu ennþá í forgrunni hins ný uppbyggða svæðis. Ég gisti eina nótt hjá Ingu og fjölskyldu á Hofi.  Skrítið að átta sig á því, að það hafi verið síðasta heimsóknin til þeirra á þennan stað, þar sem Inga og börnin flytja, nú í ágúst, í Syðra-Holt. Frá Hofi lá svo leiðin í Úlfsstaði til Kollu og hennar fjölskyldu.  Ég sá róbótan mjólka, fór á Krókinn og  lenti í afmælisveislu.  Eftir að hafa losað mig við rauðvínsvímuna lagði ég svo af stað suður.  Í góðviðrinu ók  ég upp Leirársveit, um Svínadal, yfir Dragháls og um Hvalfjörð.  Það var fallegt um að litast á þessum slóðum og veðrið einstakt.  Það eina sem skyggði á, var blámóðan sem steig upp af verksmiðjukverfinu á Grundartanga.  Það er einkennilegt að halda því fram, að þetta óféti mengi ekki út frá sér. Þegar til Reykjavíkur kom, dreif ég mig til Dísu frænku að sækja lyklana að "Húsinu á sléttunni".  Hún lánaði mér íbúðina sína á meðan hún dvaldi í sumarbústað í Borgarfirðinum.  Ég skundaði svo í Hveragerði til Kolla og Guðnýjar.  Gamli höfðinginn á Hjalla, sem hafði frétt af ferðum mínum, sneri við á leið sinni heim, til að geta spjallað aðeins.  Eftir að hafa hitt alla fjölskylduna og Ödda málara (sem er fastagestur þar) sofnaði ég sætt og rótt í húsbíl þeirra hjóna.  Til Reykjavíkur hélt ég svo um morgunin, eftir kaffi og smurt. Upphófst nú bras ferðarinnar.  Fyrst fór ég í heimsókn á Ásbrautina.  Þar þakkaði Möstið fyrir samveruna og stóð steindauður á bílastæðinu þegar ég kom út.  Eftir að hafa ýtt honum í gang, fórum við Nafna mín í verslunarferð.  Við vorum staddar í Skeifunni, þegar bíllinn drap á sér aftur, á gatnamótum. Ég gat látið hann renna afturábak inn á bílastæði og þar stóð hann og beið eftir Halla bróður, sem kom frá Akranesi til að hjálpa upp á sakirnar. Þegar geymasambandið hafði verið hreinsað og nýju startkaplarnir mínir úrskurðaðir ónothæfir, komst drossían aftur í gang. Ég var þakklát Halla og Guði fyrir að komast nú aftur leiðar minnar.  Um kvöldið hringdi Maggi vinur og spurði hvort ég væri ekki til í að koma á Kringlukrána.  Ég dreif mig og auðvitað á bílnum - sem hikstaði inn á bílastæðið við Kringluna og ákvað að drepast þar.  Þetta var nú að verða svolítið þreytandi.  Eftir tveggja tíma stórgripasýningu á Kringlukránni, ákvað ég að snúa heim.  Ég var svo heppin að vera með tásuskóna í bílnum og eftir að hafa farið úr balltúttunum, arkaði ég af stað upp í Mjódd. Enn einu sinni áttaði ég mig á því, hve margir staðir eru fallegir í Reykjavík.  Ég gekk niður í Fossvogsdalinn, undir Reykjanesbraut og upp með Elliðaánum.  Þessi leið er mjög skemmtileg og það var þess virði að eyða tíma í labbið.  Daginn eftir ýttum við Maggi lífi í bílinn og ég lagði af stað.  Ég var ekki komin nema nokkra metra - eða niður á Bústaðaveg - þegar hinstu bullutök bílvélarinnar liðu um púströrið.  Þar sem ég sat í dauðum bílnum, reyndar ekki alveg í vegi fyrir umferðinni - Maggi farinn í vinnuna og fátt um hjálplega vegfarendur, kenndi ég smá einmanaleika.  En dýrðlingar finnast enn.  Bjössi frændi gerði sér lítið fyrir og húkkaði mig úr prísundinni og dröslaði mér og bílnum heim í skúr til sín.  Til að gera langa sögu styttri, þá fór ég með Patta og fjölskyldu upp á Akranes í fermingarveislu Hjalta Mikaels og naut dagsins.  Daginn eftir hófst svo viðgerð á Dauðarauð.  Altenatorinn ónýtur og í var settur nýr sem Halli bró gaf mér.   Snyllingurinn Bjössi reddaði málunum og ég gladdist mjög yfir því að eiga svona frábæra fjölskyldu. Á mánudagsmorgni var ég búin að fá nóg og hélt heim. Stoppaði í Borgarfirðinum, þar sem Dísa frænka, Heiðrún, Hannes og Hermann Kári voru í sumarbústað, aftur á Hvammstanga, þar sem ég heimsótti sambýlið og sjúkrahúsið.  Heim komst ég svo um kvöldið og var fegin að sjá hellinn minn birtast þegar ég ók inn í Norðurgötuna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

ég dauðöfunda þig að hafa gert þetta allt og þó að þú hafir lennt í smá hrakförum með bílinn, það er pirrandi meðan á því stendur, en ævintýri samt.

solla (IP-tala skráð) 31.8.2006 kl. 10:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband