Miðvikudagur, 5. júlí 2006
Dæmalaust......
Er það ekki alveg dæmalaust hvað dagarnir líða hratt. Líklega verð ég að fara að tileinka mér kunnáttuna um markmið og áætlanagerð. Skrá niður hvenær verki skulið lokið og hvað þarf til, til að ljúka því. Ég er svo fljót að breyta um stefnu og skipta um skoðun. Nú hlær einhver hátt - trúi ég. En þetta er mitt líf og það bitnar bara á sjálfri mér ef ég er með einhverja snúninga. Ég var að skrifast á við kunningja minn á MSN. Hann tók alla lækna af lífi, fyrir það, að þeir væru að hlaða öll börn landsins full af rítalíni. Ég var ekki alveg sammála honum (að sjálfsögðu) og benti honum á að oft fara foreldrar með óþægu börnin sín og heimta róandi handa þeim. Ofvirkni er erfiður sjúkdómur og barn sem er haldið henni hefur ekki einbeitingu og á oft mjög erfitt félagslega. Óþekkt (eða sjálfstæði) er allt annað. Þetta varð heillöng romsa hjá okkur og nokkuð skörp á köflum. Ég tel mig tala af nokkuri reynslu, þar sem ég var í æsku, óþekkasti krakkaormur norðan Alpafjalla. Hvað skyldi nú hafa gerst ef ég hefði verið sett á Rítalín? Mamma og pabbi hefðu örugglega átt rólegri daga, en ég hefði ekki lært nema brot af því sem ég lærði af öllum mínum mistökum og forvitninni, sem var og er mér eðlislæg. Það kostar tíma og fyrirhöfn að eiga börn. Ef við ætlumst til þess að þau séu öll steypt í sama rólyndismótið, erum við ekki á réttri braut. Ég horfi á barnabörnin mín og í sumum þeirra sé ég sjálfa mig og hugsa með mér að foreldrarnir eigi eftir að takast á við eitt og annað, en ég veit að þessi börn verða fljótt mjög sjálfstæð. Það er góður eiginleiki að vera sjálfstæður. Það er hins vegar meira af hættum á vegi þessara barna í dag en var þegar ég var að alast upp. Nei, samfélagið verður ekki læknað með Rítalíni, en kannski það gæti lagast ef við hjálpumst að við að breyta því með því að vera meira til staðar fyrir okkar nánustu og ræða opinskátt um tilfinningar og lífsgildi. Heimili eiga að vera hlý og barnvæn, en ekki sýningareintak af naumhyggju tískunnar, þar sem ekki sést hlutur eða mynd úr fortíð foreldranna. Líf okkar er samsett úr mörgum þáttum og þá ekki síst áhrifum þess liðna. Það er sjálfstæði að lifa ekki eftir uppskrift tískuhönnuða eða kaupæðismeðaltali kunningjanna.
En nú er ég búin að sleppa mér í allt annað en ég ætlaði að vera að gera. Dæmigert!! Það er alveg spurning hvort ekki sé hægt að fá einhverskonar "flandurafréttara" hjá læknum þessa lands?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.