Þriðjudagur, 30. janúar 2007
Hetjur dagsins.
Ég er stolt af handboltastrákunum, jafnvel þó þeir töpuðu með einu marki fyrir Dönum. Var bara ánægð að hafa þá á skjánum svo ég hefði um eitthvað annað að hugsa en klikkun dagsins. Sumir dagar virðast hafa þá tilhneigingu að á þá safnast allskonar áreiti sem virðist engan enda ætla að taka. Ég er þó ánægð með það að eiga nægan styrk til að takast á við þessa eldspúandi dreka. Einhvern tíman hefði ég lotið í lægra haldi og látið mig hverfa, en ég er orðin svo hörð í baráttunni að það skal þurfa meira til en það sem á gengur. Það glittir líka alltaf í lýsandi stjörnur og þá er bara að elta þær uppi og nýta skin þeirra. Mitt í allri ringulreiðinni fékk ég símtal og það var eins og að fá stóran blómvönd og konfektkassa með. Vinir eru þyngri á vogarskálinni enn nokkur gullklumpur og þessi var þungavigt dagsins. Ég held líka að forlögin kippi í taumana, þegar þeim finnst nóg komið, og sendi eitthvert haldreipi til að toga í, svo ekki flæði yfir hausinn.
En svo ég hætti nú að velta mér upp úr veseninu, þá hafa líka gerst góðir atburðir. Um helgina tók ég þátt í að flytja Önnu Guðrúnu og fjölskyldu, í Hörgárdalinn. Þau fengu leigðan bústað til að búa í, þar til húsið þeirra í Fornhaga verður tilbúið. Svo berast batnandi fréttir af Tryggva. Fyrir þá sem ekki skilja samhengið, þá er hann maðurinn sem lenti í snjóflóðinu og Ranveig (það er bara eitt n) konan hanns, er kær samstarfskona mín.
Þá er það þetta tvennt sem umbreytist á örskots hraða. Það er veðrið og pólitíkin. Eins og svo oft áður, verður það síðarnefnda hringlandi vitlaust, þegar kosningar nálgast. Frjálslyndir eru kannski ekki svo frjálslyndir eftir allt saman og ekki alveg sammála um merkingu orðanna "rekin" og "sagt upp", "klofin" og "óklofin". Eldri borgarar og öryrkjar skella sér í slaginn og frekar en að sitja heima, skunda þeir tvíefldir fram - í tveim flokkum - en með eitt og sama baráttumálið. Það var svolítið pínlegt að fylgjast með forystumönnunum, reyna að skýra mál sitt, í kastljósi hér um kvöldið. Geir Haarde skilur ekkert hvar í ósköpunum hægt er að finna fátæk börn á Íslandi, sem er ríkast og best í allri Evrópu. Svo má nú orða aðeins rekstrarafgang bankanna. Þar hleðst gullið upp og er komið yfir læsilega lengd í núllum. Merkilegt að þeir skuli nú ekki fara að lækka aðeins útlánsvextina hjá sér. Mig minnir endilega að okurvextir séu bannaðir með lögum (kannski úr Jónsbók ?)
Ég er að hugsa um að ræða frekar um veðrið. Það er skemmtilegra viðfangsefni. Í dag kom smá rigningarúði og bleytti götur og gangstéttar. Það mynduðust þessi stórhættulegu skilyrði þegar rakinn frýs og skyndilega er allt orðið stjórnlaust, bílar og fætur. Það hafa örugglega einhverjir fengið skell, þó ég slyppi - naumlega.
Kveð í bili.
Athugasemdir
Sæl kona góð!! Auðvita vitum við hvað það er stórt að eiga góða vini. Þú manst að þeir eru eins og stjörnurnar eru,, þó ekki sjáist þeir alltaf . Ekki veit eg hvort er verra viðureignar veðrið eða pólitíkin???
Kveðja frá ungu littlu
unnur maría (IP-tala skráð) 2.2.2007 kl. 01:32
Hæhæ.... ákvað að kvitta fyrir mig....hérna er 22 stiga hitit og sól....! þau höfðu orð á því í dag hvað ég væri orðin brún í andlitinu..og fóru svo að skelli hlægja þegar þau sáu á mér hendurnar! þar er ég bara eins og skyr.
en ég sakna þín ofboðslega mikið....og hlakka til að komast í tásunudd:)
lov jú...
Dana
Dana** (IP-tala skráð) 19.2.2007 kl. 12:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.