Dulúð og draumar

Ískaldur raunveruleikinn blasti við, þegar ég gekk út úr vinnunni minni kl 16:30 í dag.  Ég settist inn í jökulkalda og hélaða Möstuna og startaði,  klappaði henni á stýrið þegar hún hökti í gang, eins og venjulega.  Mikið á ég gott að eiga svona magnaða bíldruslu.  Ég dreif mig á bensínstöð og lét kanna frostlöginn.  36° - sagði höfðinginn sem mældi - og ég ók ánægð í burtu.  Kom svo við í Hagkaupum og verslaði mér hlýja peysu í tilefni af 20 gráðunum.  Sérkennilegt var um að litast á Eyrinni.  Á sumum stöðum var dimm þoka - eða ísreykur,  eins og það er víst kallað, við þessi skilyrði.  Tré og runnar voru í hrímhvítu klæðunum og það glitraði á allt eins og það væri úr gersemum gert.  Og auðvitað eru þetta gersemar.  Það er ekkert auðveldara en að fleyta ímyndunaraflinu af stað og horfa á litla frostálfa hoppa grein af grein, þræða kristallana upp á hár sitt og dansa í bláleitum bjarmanum.  Þeir dansa í hringi og það hljómar í hörpum vetrarins.  Ég velti því fyrir mér af hverju álfar, dísir og smáverur skjóta alltaf upp kollinum í huga mér, þegar ég hrífst af fegurð náttúrunnar.  Kannski ég ætti að spyrja sálfræðinginn að þessu.  Hann gæti mögulega fundið það út að ég væri ó-jarðtengd - eða kannski of-jarðtengd.  Hvort heldur sem er, þá gleðst ég yfir því að eiga þetta ímyndunarafl og vil endilega auka við það, frekar en að fæla smáverurnar mínar í burt.  Kannski er ég smávera í álögum í mannheimi.  Þá fer nú að verða skiljanlegt af hverju ég er eins og raun ber vitni.  Ég man,  þegar ég las Dísu ljósálf og Alfinn álfakóng, þá gat ég verið með í sögunum, skriðið milli sefstráanna og falið mig í skegginu á Alfinni.  Ég á líka búálfa.  Þeir eru hnuplarar og flakka með eigur mínar stað úr stað.  Stundum tala ég við þá, en þeir eru ekkert sérstaklega skrafhreyfnir.  Það gæti svosem verið að einn og einn hefði lent óvart í ryksugunni, jafnvel þó hún sé ekkert sérstaklega mikið notuð.  Það er þó bót i máli að ég álít þá vel synda svo það ætti ekki að ergja þá mikið að fá sér eina og eina salíbunu.  Nú ætla ég að bæla mig og gá hvort ég hitti eitthvað af þessum ættingjum mínum í Draumalandinu.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er aldeilis að það hefur kviknað á minni komin bara á fartið í blogginu, meðan ég eiginlega fór í dvala, en já það er gott að láta ýmindunaraflið hlaupa, og sjá það skemmtilega í hlutunum. bið svo bara að heilsa og já gleðilegt ár:)

solla (IP-tala skráð) 17.1.2007 kl. 22:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband