Færsluflokkur: Lygasögur

Þegar kjúllinn er úrbeinaður.....

Þegar ég velti því fyrir mér, af hverju íslendingar eru svona mikil (kjafta)sagnaþjóð, kemst ég að eftirfarandi:  Í þá gömlu hörðu daga, þegar þjóðin var fámenn og dreifð og bjó við þær aðstæður sem við eigum erfitt með að ímynda okkur, í lágreistum torfhúsum og oft einangrað, var fréttin kærkomin.  Gestur sem kom á bæ var krafin frétta og frekar en að hafa ekkert að segja, var ofið aðeins við það litla markverða sem fréttnæmt taldist.  Við eigum líka kveðjuviðauka sem kallar eftir þessum viðbrögðum. " Hvað segir þú í fréttum?" eða  "Hvað er títt?" eru viðhengi  sem loðað hafa við hér á landi og virðist þetta viðhengi vera sér Íslenskt.  Í öðrum löndum er spurt "Hvernig hefur þú það?" eða "Hvernig gengur þér?"  Þrátt fyrir að við séum  meðal allra upplýsingavæddustu þjóða nútímans, gerum við enn þá kröfu, að  fá eitthvað bitastætt að frétta frá viðmælanda.  Og þar sem við erum svo fámenn að allir kannast við flesta, hendir það oftar en ekki að fólk er fréttaefnið. Nú er það svo, að af einhverjum merkilegum ástæðum velst hið neikvæða frekar til umræðu en hið jákvæða og sé fréttin óljós, er farið að leiða getum að "sannleikanum".  Af þessu hlýst það að getgátan er orðin að staðreynd eftir að hafa farið milli  3 - 4 einstaklinga.  "Ólýginn sagði mér". 

Sagan af hænunni sem missti eina fjöður,  er löngu þekkt og var örugglega samin til varnaðar fréttaflytjendum.  En það forvarnarstarf hefur gengið frekar dapurlega og sú saga orðin svo marg tuggin að hún hefur líklega misst allan mátt, en boðskapur hennar stendur alltaf fyrir sínu. En virðingin fyrir tilfinningum annara er af svo skornum skammti að fólk er hiklaust reytt, fjöður fyrir fjöður og ekki nóg með það, heldur er holdið rifið af beinunum líka.  Eigi viðkomandi fórnarlamb sér einhvern talsmann, er hann úrbeinaður í leiðinni og pottrétturinn matreiddur fyrir gráðug eyru næsta manns sem spyr; "Hvað segir þú í fréttum"?  

Flestir reyna, sem betur fer, að sleppa við að valda öðrum líkamlegu tjóni og þeir sem hafa lent í þeim aðstæðum, eiga oft við sálræna erfiðleika að stríða eftir þau slys.  Fólk virðist ekki gera sér grein fyrir því að mannorðsskemmdir eru, ekki síður, tjón fyrir þann sem verður fyrir þeim, en líkamlegir áverkar.  Oftar en ekki missir hinn fréttnæmi einstaklingur fótfestuna, í félagslegum skilningi og lendir í erfiðleikum með að bera af sér mál sem  komast á flug með fjaðradrífunni. Í versta falli getur svona ástand leitt til varanlegs skaða eða jafnvel algerrar uppgjafar.  Við ættum því að velta fyrir okkur  hvernig það er að láta reyta af sér mannorðsfjaðrirnar og hvort við viljum verða næsti kjúklingur sem fær að fjúka......    


Þegar ég fór í hundana....

Þið ráðið hvort þið trúið mér eða ekki, en hérna á dögunum gerðist það að skapið mitt fór alveg í hundana.  Það var ekki nóg með það, - heldur fóru mínar fögru tær sömu leið.  Það vildi þannig til, að á fimmtudaginn fyrir þjóðhátíð, brást mér þolinmæðin að bíða eftir því að "verðlaunalóðin" við húsið yrði slegin.  Tilætlunarsemi mín ætlaðist til að einhver hinna þriggja íbúðaeigendanna sæi um fyrsta slátt þetta árið.  En þar sem ekkert hafði gerst í málunum og allt skal vera prýtt og huggulegt á þessum merkis degi, þeyttist ég á Möstinu mínu út í Byko og tók á leigu flotta sláttuvél, með drifi á öllum og safnara aftaná.  Ég draujaði græjunni heim og eftir að hafa komist að því að þeir sjúga rándýrt bensínið af tanknum áður en vélarnar fara út, skellti ég mér á hjólinu upp að BSO og keypti nokkra dropa.  Tankurinn fullur og allt til reiðu..  Vélinni startað, drifstönginni sleppt og gömlu landbúnaðarnasirnar þöndust út af eftirvæntingu eftir lyktinni af nýslegnu grasi.  PANG!!!!!!  Ég hrökk í háaloft og missti næstum af mér tásuskóna, sem eru þó grónir fastir við mig.  PANG!! PANG!! Ógurleg skothríð drundi við og upp gaus megn lykt svo að sjálfvirki lokunarbúnaðurinn í nefkokinu skall aftur.  Ég sleppti bæði bensíngjöf og drifi og leitaði skjóls í ofboði.  Þar sem ég stóð í felum með nefið klesst upp við kalt, fjögura tommu svert rör  snúrustaursins, gægðist ég sitt hvoru megin við hann í leit að hryðjuverkamönnum.  Það var grafarþögn, dautt á vélinni og hvergi hreyfingu að sjá.  Allt kvikt í mílu fjarlægð hafði leitað skjóls svo ekki sást svo mikið sem ein fluga.  Eftir dágóða stund vogaði ég mér að koma úr felum og gá fyrir húshornin.  Þar var engan að sjá heldur.  Ég herti upp hugan og ákvað að deyja bara  á hetjulegan hátt - við sláttinn, frekar en dyljast lengur á bak við staurinn.  Vélin ræst í annað sinn og drifstönginni sleppt.....   PANG!PANG! PANG! PANG!!!! Með hjartað í gollurshúsinu, áræddi ég að opna aðeins fyrir aðra nösina.  Ohhhh......   Holy shit!!  Þvílík ólykt!!  Í annað sinn sleppi ég stýristólunum og vélin þagnar.  Mér til gleði fann ég fyrir  skynsemis-ögninni minni (sem hafði líka flúið).  Að hennar fyrirmælum, hóf ég rannsóknir á vetvangi.  Ég rykkti stóru gulu plasttrommunni af sláttuvélinni og hellti úr henni á nýsleginn blettinn.  Þarna blöstu  við mér  grjótharðar staðreyndir árásarinnar.  Hundaskítur......   Innanum nokkur söxuð fíflablöð og örfá strá, var haugur af sundurhöggnum lortum og lyktin var svo megn að hún hefði slegið við hvaða kamri sem var. Ég fann hvernig geðprýði mín dró sig í hlé og blóðþrýstingurinn hækkaði.  Blótsyrðahryna þrýstist út um raddböndin og hugsanirnar urðu verulega skítlegar.  Ég gat ekki látið það spyrjast út að ég hefði skilað rándýrri sláttuvélinni til baka án þess að hafa klárað blettinn. Illu er best aflokið..  Ég hrifsaði stærstu þvottaklemmuna af snúrunni, skellti henni á svívirt nefið og rykkti maskínunni í gang.  Á met tíma hafði ég flötinn af og skeytti engu þó skothríðin heyrðist yfir í Vaðlaheiði.  Það var kannski eins gott að ræðurnar mínar druknuðu í hávaðanum, því þær voru ekki hæfar eyrum viðkvæmra.  Það bætti svo ekki úr skák þegar vélin festist í stórri holu.  Þar höfðu hundarnir gert tilraun til að grafa sér leið, burt úr þessu skítapleisi.  Ég kláraði verkið og er stolt af því, en þolinmæði mín er farin í hundana og ég gef SKÍT í að slá þetta lóðarrassgat aftur.Öskrandi    

Fæ mér ekki hund - bara svona sett í garðinn minn!!    


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband